Sport

Kennir kyn­lífi með kærastanum um fall á lyfja­prófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ysaora Thibus er ekki búin að gefa upp vonina um að fá að keppa á ÓL í París í sumar.
Ysaora Thibus er ekki búin að gefa upp vonina um að fá að keppa á ÓL í París í sumar. Getty/Antoine Flament

Franska skylmingakonan Ysaora Thibus er ekki búin að gefa upp vonina um að keppa á Ólympíuleikunum á heimavelli í sumar.

Vandamálið er að Thibus féll á lyfjaprófi í janúar þegar efnið ostarine fannst í sýni hennar. Lyfið er á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins. Í febrúar fékk hún að vita að hún hefði fallið á prófinu og um leið að leikarnir í París væru úr sögunni.

Thibus reynir nú að fá keppnisleyfið aftur og heldur staðfastlega fram sakleysi sínu. Vörn hennar hefur vakið athygli. Hún kennir kynlífi með kærastanum um fallið á lyfjaprófinu. Tveimur vikum eftir að hún féll á prófinu taldi hún sig hafa fundið það út hvaðan efnið kom.

Thibus segist hreinlega hafa fengið efnið í sig eftir kynlíf með manni sínum. Kærasti hennar er líka þekktur skylmingamaður eða Bandaríkjamaðurinn Race Imboden. Þau trúlofuðu sig á hóteli í París eftir Ólympíuleikana í Tókýó.

„Við vitum nú hvaðan efnið kom og það kom frá kærasta hennar Race Imboden. Hann tók inn efni sem innihélt ostarine. Hún hefur því fengið það í sig í gegnum skipti þeirra á líkamsvessum,“ sagði Joëlle Monlouis, lögfræðingur hennar við franska blaðið L´Equipe.

Thibus er 32 ára gömul og vann silfur í liðakeppni á Ólympíuleikunum í Tókýo 2020. Hún hefur gull á HM og fullt af verðlaunum á Evrópumótum. Imboden vann brons með bandaríska liðinu á sömu leikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×