Sport

Sara efst en meira en níu hundruð konur á undan Katrínu Tönju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir var sú eina inn á topp tvö hundruð af íslensku stelpunum.
Sara Sigmundsdóttir var sú eina inn á topp tvö hundruð af íslensku stelpunum. @sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir náði bestum árangri íslenskra kvenna í fyrsta hluta The Open en CrossFit samtökin eru búin að fara yfir árangur keppenda í 24.1.

Þetta er fyrsta vikan af þremur í opna hlutanum en 25 prósent þátttakenda tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitunum þar sem síðan verður barist um sæti á undanúrslitamótunum. Þetta er því fyrsta skrefið í átt að því að tryggja sig inn á heimsleikana.

Sara er í 199. sæti í heiminum eftir þessa fyrstu viku og í 94. sæti í Evrópu. Hún kláraði æfingu 24.1 á sex mínútum og 48 sekúndum.

Önnur meðal íslensku stelpnanna varð síðan hin unga Bergrós Björnsdóttir sem er í 299. sæti í heiminum eftir að hafa klárað á sex mínútum og 57 sekúndum.

Þriðja varð síðan Þuríður Erla Helgadóttir sem kláraði á sjö mínútum sléttum og endaði í 356. sæti í heiminum.

Tvær urðu jafnar í fjórða sætinu eða þær Birna Sjöfn Pétursdóttir og Birta Líf Þórarinsdóttir sem kláruðu báðar á sjö mínútum og einni sekúndu sem skilaði þeim 365. sæti á heimsvísu.

Athygli vakti að Katrín Tanja Davíðsdóttir, sem keppir í undankeppni Norður-Ameríku, endaði í bara í 902. sæti á heimsvísu en hún kláraði á sjö mínútum og 25 sekúndum. Það voru því fleiri en níu hundruð konur í heiminum sem enduðu á undan henni í 24.1.

Þessi æfing hentaði ekki Katrínu en hún færi tækifæri til að bæta stöðu sína á næstu tveimur vikum.

Katrín var með tíunda besta árangurinn meðal íslensku stelpnanna en á undan henni voru líka Sólrún Sigþórsdóttir, Steinunn Anna Svansdóttir, Tanja Davíðsdóttir og Þórunn Katrín Björgvinsdóttir.

Anníe Mist Þórisdóttir tók líka þátt í 24.1 þrátt fyrir að vera komin sjö mánuði á leið. Hún kláraði á tíu mínútum og fimm sekúndum sem skilaði henni sæti 17.037 í heiminum. Anníe var með 86. besta árangurinn hjá íslenskum konum.

Efstu íslensku konurnar.CrossFit Games



Fleiri fréttir

Sjá meira


×