Sport

Henda meira en ellefu milljörðum út um gluggann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Wilson hitar upp fyrir leik með Denver Broncos.
Russell Wilson hitar upp fyrir leik með Denver Broncos. Getty/Perry Knotts

NFL-félagið Denver Broncos hefur tekið þá risastóru ákvörðun að losa sig við leikstjórnandann Russell Wilson þrátt fyrir að hann eigi tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.

Broncos fékk Wilson í stórum leikmannaskiptum við Seattle Seahawks fyrir tveimur árum og létu mikið frá sér á móti. Í staðinn fékk Seahawks fimm valrétti þar af tvo í fyrstu umferð og tvo í annarri umferð. Einnig komu þrír leikmenn til Seattle.

Eftir skiptin þá gerði Denver síðan nýjan fimm ára samning við Wilson sem skilaði honum 242,6 milljónum dollara eða 33 milljörðum króna. ESPN segir frá.

Undir lok síðasta tímabils gafst Denver upp á Wilson og hann spilaði ekki í síðustu tveimur leikjunum.

Hann á enn eftir tvö ár af umræddum samningi en svo mikið vildi Denver losna við hann að félagið er tilbúið að henda 85 milljónum dollurum, meira en ellefu milljörðum íslenskra króna, út um gluggann.

Denver þarf ekki aðeins að borga þennan pening heldur þrengir þetta einnig að launaþaki félagsins á næstu tveimur leiktíðum. Þetta er það langmesta sem félag hefur fórnað til að losna við leikmann í sögu NFL-deildarinnar.

Hinn 35 ára gamli Wilson leiddi Denver til sigurs í 11 af 30 leikjum en koma hans til Denver var ekki sú vítamínssprauta sem eigendurnir bjuggust við. Wilson hafði gert góða hluti í Seattle og unnið einn meistaratitil með Seahawks.

Wilson er því laus allra mála og orðrómur um að bæði Minnesota Vikings og Pittsburgh Steelers hafi áhuga á því að fá hann til síns. Hann verður því eflaust ekki atvinnulaus lengi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×