Sport

Dómarinn tók upp nefið hans af vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nefið hans Christian Wejse var saumað aftur á.
Nefið hans Christian Wejse var saumað aftur á. @Christian_Wejse

Íshokkíleikmaðurinn Christian Wejse missti bókstaflega nefið sitt í leik á dögunum þegar hann fékk slæmt högg.

Hinn 25 ára gamli Wejse spilar með Fischtown Pinguins í þýsku deildinni. Fyrir fjórum vikum þá varð hann fyrir óhappi í 5-2 sigurleik á móti Nürnberg Ice Tigers.

Wejse fékk högg á nefið þegar hann fór í tæklingu. Hjálmurinn hans færðist til og skar bókstaflega nefið af honum.

„Ég sá blóð á ísnum og hélt að ég væri nefbrotinn. Liðslæknirinn okkar fór með mig inn í búningsklefann og sagði mér frá því að dómarinn hafði fundið nefið mitt á ísnum. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði misst nefið mitt í árekstrinum,“ sagði Wejse við þýska blaðið Bild.

Nefið hans var saumað á hann aftur og þurfti hann 25 spor til að koma því aftur á réttan stað.

Wejse er hvergi smeykur og er strax aftur byrjaður spila í íshokkí. Hann er með sérstaka vörn á nefinu til að verja hann fyrir frekari skakkaföllum. Hann hefur ekki áhyggjur.

„Nei. Kærastan mín hafði hins vegar miklar áhyggjur og heimtaði það að ég passaði mig betur,“ sagði Wejse.

Alfred Prey, þjálfari hans hjá Fischtown Pinguins, var í áfalli yfir meiðslunum. „Ótrúlegt. Svona gerðist kannski einu sinni á þrjátíu ára fresti,“ sagði Alfred Prey.

Wejse er öflugur leikmaður. Hann er með 15 mörk og 7 stoðsendingar á þessu tímabili. Hann er einnig danskur landsliðsmaður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×