Innlent

Hvetja fólk til að svara ekki ó­þekktum er­lendum númerum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hvetur fólk til að svara ekki erlendum númerum sem það kannast ekki við.
Lögreglan hvetur fólk til að svara ekki erlendum númerum sem það kannast ekki við. Getty

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir fjölmarga Íslendinga hafa á undanförnum dögum fengið símtöl úr númerum sem skráð eru í Sri Lanka eða Lúxemborg. Þau hefjast því á +352 og +94.

Fólki er ráðlagt að svara þessum númerum ekki, þar sem um svikasímtöl er að ræða.

„Tilgangurinn með símtölunum er að komast yfir fjármuni þess sem hringt er í.

Hvetjum við fólk almennt til að svara ekki símtölum frá erlendum númerum sem fólk kannast ekki við. Þá bendum við einnig á að hringja ekki til baka sé ósvarað símtal frá númerum sem þessum,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir að sé svarað kynni sig aðili sem segist vera frá fjárfestingafélagi sem nýlega hóf störf á Íslandi. Biður hann fólk um að skrá sig inn á heimasíðu sem gefin er upp. Í framhaldinu virðist sem fólk fái beiðnir í farsíma sína með lykilorðum, sem alls ekki skal gefa upp.

„Ef fólk telur sig hafa orðið fyrir svikum vegna þessa og telur sig hafa tapað fjármunum er því bent á að hafa strax samband við sinn viðskiptabanka og fá þar ráðgjöf og í framhaldinu tilkynna málið til lögreglu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×