Sport

Júlía Sylvía fyrst Ís­lendinga til að vinna al­þjóð­legt listskautamót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir í keppninni um helgina.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir í keppninni um helgina. Skautasamband Íslands

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir vann sögulegan sigur á Reykjavíkurleikunum um helgina.

Hún varð þar fyrsti íslenski skautarinn til þess að fá gullverðlaun í fullorðinsflokki á alþjóðlegu móti.

Talsverður fjöldi keppenda var kominn til Íslands til að freista þess að ná lágmörkum inn á alþjóðleg stórmót en Reykjavíkurleikirarnir eru hluti af gildum mótum Alþjóðaskautasambandsins og geta skautarar sem keppa þar náð lágmörkum inn á alþjóðleg úrslitamót eins og heimsmeistaramót og Evrópumót.

Því miður setti veðrið strik í reikninginn og ekki komust allir á mótið sem ætluðu sér að taka þátt.

Í keppni kvenna voru sterkir skautarar en enginn þeirra öflugri en Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Júlía Sylvía stóð sig vel og var í öðru sæti eftir fyrri daginn með 40.35 stig. Í fyrsta sæti eftir daginn var hins vegar Tara Prasad frá Indlandi með 45.98 stig og í þriðja sæti var Roos van der Pas frá Hollandi með 34.57 stig.

Seinni daginn var það svo Júlía Sylvía sem var efst allra, Ross van der Pas önnur og Tara Prasad sú þriðja.

Samanlagður sigurvegari keppninnar var því Júlía með 128.27 heildarstig, Tara Prasad í öðru sæti með 123.90 heildarstig og Roos van der Pas var þriðja með 113.48 heildarstig.

Leon Lo frá Hollandi vann drengjaflokk en í stúlknaflokki vann Floor van der Pas frá Hollandi. Lea Marie Castlunger frá Ítalíu varð önnur en Elín Katla Sveinbjörnsdóttir tók þriðja sætið.

Wendell Hansson-Ostergaard frá Danmörku vann unglingaflokk karla og Jenni Hirvonen frá Finnlandi vann unglingaflokk kvenna.

Connor Bray frá Bretlandi vann fullorðinsflokk karla án keppni þar sem hinn keppandinn forfallaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×