Innlent

Inga dregur van­trausts­til­löguna til baka

Jakob Bjarnar skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist varla eiga annan kost í stöðunni en draga vantrauststillögu sína til baka eftir að Svandís greindi frá því að hún sé komin með krabbamein í brjóst.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist varla eiga annan kost í stöðunni en draga vantrauststillögu sína til baka eftir að Svandís greindi frá því að hún sé komin með krabbamein í brjóst. Vísir/Vilhelm

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var ekki fyrr búin að leggja fram vantraustyfirlýsingu en Svandís Svavarsdóttir greindi frá því að hún væri komin með krabbamein. Hún segir réttast að draga tillöguna til baka.

„Þetta slær mann. Svakalegt að heyra,“ segir Inga Sæland í samtali við Vísi.

Svandís greindi frá því á Facebook nú rétt í þessu að hún hafi greinst með krabbamein í brjósti í morgun. Ingu, sem var nýbúin að leggja fram vantrauststillögu á hendur henni, er brugðið. Hún segist ekki búin að ræða þetta við sitt fólk en henni er skapi næst að draga vantrauststillöguna til baka.

„Það er náttúrlega lítill bragur að leggja fram vantraust gegn einstaklingi sem er ekki á þinginu til að verja sig,“ segir Inga. Og bætir við:

„Þetta er dugleg kona. Ég óska henni alls hins besta, hún tekst á við þetta með æðruleysinu.“

Inga segist aldrei hafa staðið í svona nokkru fyrr, en það hljóti að vera að vantrauststillagan verði dregin til baka fyrst svona er komið.

„Það hlýtur að vera. Maður gefur þessu frið meðan svona sjúkleiki er að koma upp. Hún verður að vera viðstödd til að verja sig. Mér líður þannig núna, það er mín fyrsta tilfinning. Þetta er áfall fyrir okkur öll.“

Inga telur það líklegast í stöðunni þó hún geti ekki sagt af eða á með hundrað prósenta vissu.

„Þetta eru sláandi tíðindi, skelfilegar fréttir og við sendum henni kærleiksstrauma.“

Uppfært 16:50

Inga hefur nú rætt við sitt fólk og er ósk um að vantrauststillagan verði dregin til baka komin í formlegt ferli í þinginu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×