Sport

Vann brons en sá eftir tveimur verð­launum til léttari kepp­enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Þórhallsdóttir með verðlaunin sín en hún fékk tvenn bronsverðlaun og eitt silfur.
Kristín Þórhallsdóttir með verðlaunin sín en hún fékk tvenn bronsverðlaun og eitt silfur. @kraftlyftingasamband_islands

Kristín Þórhallsdóttir fékk bronsverðlaun á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum um helgina og hefur þar með unnið gull, silfur og brons í samanlögðu á þessu móti undanfarin þrjú ár.

Kristín kemur heim með þrenn verðlaun því hún fékk silfur í hnébeygju, brons í bekkpressu og loks brons í samanlögðu. Hún náði ekki að klára lokalyftu sína í réttstöðulyftu og rétt missti af verðlaunum í þeirri grein keppninnar.

Það vakti þó athygli að Kristín fékk ekki silfurverðlaun í samanlögðu þrátt fyrir að lyfta jafnmiklu og Temitopi Nuga frá Bretlandi. Hún missti líka af bronsverðlaunum í réttstöðulyftunni þrátt fyrir að lyfta jafnmiklu og hin ítalska Giada Palma.

Kristín og Nuga lyftu báðar 552,5 kílóum samanlagt og Kristín og Palma lyftu báðar 220 kílóum í réttstöðulyftu. 

Ástæðan fyrir því að Kristín missti af þessum tveimur verðlaunum í -84 kílóa flokki er sú að keppinautar hennar voru léttari en hún þó ekki munaði miklu.

Keppendur eru þyngdarmældar fyrir keppni til að tryggja það að þær séu undir 84 kílóum en næsti flokkur fyrir neðan er -76 kílóa flokkur. Þessi mæling er síðan notuð til að gera upp á milli keppenda endi þær jafnar. Það getur því enginn orðinn jafn í keppninni því þyngdarmæling keppenda er mjög nákvæm.

Kristín mældist 83,78 kíló en Temitopi Nuga var 82,86 kíló. Palma var síðan 82,84 kíló.

Sigurvegari í flokknum varð Ziana Azariah frá Bretlandi með 581 kíló í samanlögðum árangri. Hún fékk líka gull í bæði réttstöðulyftu og hnébeygju en varð fjórða í bekkpressu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×