Innlent

Um þrjú hundruð börn bíða heyrnar­mælingar

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.
Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Ófremdaráastand ríkir hjá heyrnarskertum og heilbrigðiskerfið hafa sofið á verðinum að sögn forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Tvö þúsund manns bíða nú þjónustu og þar af eru tæplega þrjú hundruð börn

Um tuttugu þúsund Íslendingar glíma við heyrnarskerðingu og stækkar sá hópur ár frá ári vegna hærri hærri meðalaldurs. Kristján Sverrisson, forstjóri heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, segir stjórnvöld og heilbrigðiskerfið hafa brugðist þeim sem glími við heyrnarskerðingu.

Fjöldinn tvöfaldast

„Staðan er þessi við erum enn á sömu höfðatölu og fyrir tuttugu árum, við erum enn á sömu fermetrunum og fyrir fimmtíu árum en viðskiptavinafjöldi okkar hefur sennilega tvöfaldast og mun tvöfaldast aftur á næstu fimm til tíu árum bara vegna öldrunar þjóðar,“ segir Kristján. 

Heyrnar- og talmeinastöðin hafi verið tekin með halla síðustu ár og ef ekki verði brugðist við þurfi einfaldlega loka og skella í lás. „Þetta gengur ekki. Við erum búin að vera skera niður alveg frá hruni. það er stórkostlegur skortur á fólki sem er með menntun í heyrnarfræði, bæði heyrnarfræðinga og tækna. Þeir eru ekki til á landinu, hér eru sennilega um tíu. Það eru innan við níu full stöðugildi af heyrnarfræðingum á öllu landinu en þeir þyrftu að vera svona í kringum fimmtíu,“ útskýrir Kristján. 

Rúmlega tveggja ára bið

Á meðan lengist biðlistar. „Nú er svo komið að það eru rúmlega tvö þúsund manns á biðlista hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og biðin eftir þjónustu í sumum þjónustuflokkum er komin yfir tvö ár,“ segir hann og bætir við að stofnunin sé sú eina sem geti mælt börn og nú séu um þrjú hundruð börn á biðlista. 

„Við erum með börn í algjörum forgangi hjá okkur en samt eru svona biðlistar þar og þá ýtum við fjöldanum öllum af öðrum frá til þess að geta þjónað þessum forgangshópi,“ segir Kristján og heldur áfram: „Það stappar við neyðarástand í þessari þjónustu og ráðuneytið virðist vera algjörlega ráðþrota.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×