Erlent

Ofur­­­greind ekki enn á sjón­­deildar­hringnum en þörf á eftir­­liti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hassabis segir aðkallandi að horfa til alþjóðlegrar stefnumörkunar og eftirlits með þróun gervigreindar.
Hassabis segir aðkallandi að horfa til alþjóðlegrar stefnumörkunar og eftirlits með þróun gervigreindar. epa/Wu Hong

Demis Hassabis, framkvæmdastjóri Google DeepMind, segir „guðlega“ gervigreind ekki á sjóndeildarhringnum enn sem komið er en að vinna við stefnumörkun og eftirlit með þróun gervigreindar verði að hefjast „í gær“.

Stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa boðað til ráðstefnu um áskoranir vegna hraðrar framþróunar gervigreindar þar sem Hassabis verður  meðal frummælenda. Hann er frumkvöðull á þessu sviði, stofnaði DeepMind árið 2010 og seldi fyrirtækið til Google árið 2014.

Frá þeim tíma hefur hann farið fyrir þróun gervigreindar hjá tæknirisanum.

Hassabis segist ekki vera meðal þeirra sem óttast eða eru afar neikvæðir í garð gervigreindar en hann segir ríki heims hins vegar þurfa að hefjast tafarlaust við að draga úr og koma í veg fyrir hættur af völdum tækninnar, sem menn gætu meðal annars misnotað til að þróa lífefnavopn.

„Við verðum að taka hættuna af völdum gervigreindar jafn alvarlega og aðrar alþjóðlegar áskoranir, eins og loftslagsbreytingar,“ segir Hassabi. „Það tók alþjóðasamfélagið of langan tíma til að koma með samræmar aðgerðir hvað þær varðar og við búum nú við afleiðingar þess. Við megum ekki við sömu töfum hvað varðar gervigreindina,“ segir hann.

Milliríkjanefnd eða alþjóðastofnun

Það var teymi Hassabi sem þróaði AlphaFold, forritið sem hefur spáð fyrir um byggingu allra prótína líkamans. Hann segir gervigreind gætu orðið ein mikilvægastu tækniframþróun sögunnar en að stefnumótunar sé þörf og þar megi horfa til alþjóðlegra stofnana á borð við Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC).

Stofnun á borð við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina myndi svo taka við, sem hefði eftirlit með framþróun tækninnar.

Hassabis segir gervigreindina geta stuðlað að ótrúlegum framförum, til dæmis á vettvangi heilbrigðisvísinda, og segist ekki myndu starfa á þessu sviði ef hann teldi það ekki geta orðið til góðs. Hins vegar var hann einnig meðal framámanna sem undirrituðu opið bréf í maí um mögulegar ógnir gervigreindar.

Menn hafa viðrað áhyggjur af því að mannkyninu gæti bókstaflega stafað tilvistarleg ógn af tækninni, að forrit gæti hreinlega orðið gáfaðra en manneskjan og losnað undan stjórn hans.

„Gæti hún stolið eigin kóða, bætt eigin kóða? Gæti hún afritað sig án leyfis? Það væri óæskileg hegðun því ef þú vilt slökkva á henni viltu ekki að hún geymi afrit af sér annars staðar,“ segir Hassabis. „Það er alls konar svona hegðun sem væri óæskileg hjá öflugu kerfi.“

Prófanir eru ein þeirra lausna sem Hassabis leggur til og svo mögulega lagasetning. En rannsókna sé þörf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×