Sport

Enginn venjulegur miðvikudagur hjá Eygló Fanndal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir átti frábæran miðvikudag eins og hún sýndi fylgjendum sínum í gær.
Eygló Fanndal Sturludóttir átti frábæran miðvikudag eins og hún sýndi fylgjendum sínum í gær. @eyglo_fanndal

Íslenska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir er enn á hraðri uppleið á sínum ferli og það sýndi hún með frábærum bætingum hjá sér í snörun og jafnhöttun í gær.

Eygló sýndi nefnilega fylgjendum sínum að gærdagurinn var enginn venjulegur miðvikudagur. Eygló setti þá persónuleg met í bæði snörun og jafnhöttun sem þýðir einnig bætingu í samanlögðu.

Eygló var fyrir rúmu ári fyrsta íslenska konan til að snara hundrað kíló og hún var líka einstök meðal íslenskra kvenna þegar hún jafnhattaði 123 kílóum á heimsmeistaramótinu í Riyadh í Sádí Arabíu í september.

Á því móti setti hún þrjú Íslandsmet með því að snara 102 kílóum og fara upp með 123 kíló í jafnhendingu. Með þessum lyftum hennar fóru því 225 kíló upp hjá henni samanlagt.

Hún bætti með því öll sín eigin Íslandsmet, um tvö kíló í snörun, um tvö kíló í jafnhendingu og um fimm kíló í samanlögðu.

Eygló sýndi í gær að það býr svo sannarlega meira í henni. Hún bætti þennan persónulega árangur sinn á æfingu með því að lyfta 104 kílóum í snörum og 125 kílóum í jafnhendingu. Það þýðir að 229 kíló fóru upp samanlagt.

Hér fyrir neðan má sjá Eygló lyfta þessum þyngdum og að sjálfsögðu var þetta tími fyrir smá gleðidans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×