Fótbolti

Algjör geðshræring á Twitter er San Marínó jafnaði gegn Dönum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn San Marínó leyfðu sér að fagna vel og innilega er liðið jafnaði gegn Dönum í gær.
Leikmenn San Marínó leyfðu sér að fagna vel og innilega er liðið jafnaði gegn Dönum í gær. Emmanuele Ciancaglini/Ciancaphoto Studio/Getty Images

Landslið San Marínó er líklega síst þekkt fyrir afrek sín á knattspyrnuvellinum, enda situr liðið sem fastast í neðsta sæti styrkleikalista FIFA. Það kom því líklega mörgum á óvart er liðið jafnaði metin gegn Dönum í undankeppni EM 2024 í gærkvöldi.

San Marínó hefur aðeins unnið einn landsleik frá upphafi, en sá sigur kom í vináttulandsleik gegn Liechtenstein árið 2004. Liðið á því enn eftir að vinna keppnisleik. 

Á Wikipedia-síðu liðsins er stuttur listi sem telur saman alla þá leiki sem San Marínó hefur leikið án þess að tapa og eru þeir leikir aðeins níu talsins.

Hér má sjá þá níu leiki San Marínó í sögunni sem ekki hafa endað með tapi.Skjáskot/Wikipedia

Það var því ljóst að liðið sem situr í neðsta sæti styrkleikalista FIFA myndi líklega eiga í vandræðum með Dani er liðin mættust í H-riðli undankeppni EM 2024 í gær kvöldi. Danir sitja í 18. sæti styrkleikalistans og höfðu þegar tryggt sér sæti á EM, en San Marínó sat á botni riðilsins, án stiga og með markatöluna 0-24.

Danir voru heldur lengi í gang gegn San Marínó í gær og liðið náði ekki forystunni fyrr en á 42. mínútu þegar Rasmus Højlund kom boltanum í netið. Alessandro Golinucci jafnaði þó metin fyrir San Marínó eftir um klukkutíma leik og á vinsælum stuðningsmannareikningi liðsins á X, áður Twitter, ætlaði allt um koll að keyra eins og sjá má hér fyrir neðan.

Gleðin var þó ekki langlíf því aðeins tíu mínútum síðar kom varamaðurinn Yussuf Poulsen Dönum yfir á nýjan leik og tryggði liðinu 1-2 sigur. Stuðningsmaður San Marínó sem stendur á bakvið reikninginn gat þó ekki annað en verið stoltur af sínum mönnum.

Eins og við var að búast endaði San Marínó þó í neðsta sæti H-riðils, án stiga. Liðið fagnar því þó líklega vel og innilega að hafa skorað eitt mark í leikjunum átta sem San Marínó lék í riðlinum, enda kom markið gegn Dönum sem sitja í 18. sæti heimslista FIFA, 189 sætum ofar en San Marínó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×