Menning

Hefur náð miklum árangri á heims­vísu en tengingin við Ísland órjúfanleg

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.
Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst. Vísir/Vilhelm

„Maður getur ekkert forðast egó-ið alveg, það situr á öxlinni og er bara what’s up,“ segir listakonan Hrafnhildur Arnardóttir, jafnan þekkt sem Shoplifter. 

Hrafnhildur er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst ásamt Hrafnkeli Sigurðssyni og Kurt Uenala en saman standa þau að sýningunni Þing/Thing í Ásmundarsal.

Hér má sjá þáttinn í heild sinni:

Hrafnhildur flutti til New York fyrir tæpum þremur áratugum síðan og hefur verið að gera öfluga hluti í listheiminum bæði erlendis sem og hér heima en litrík hárverk hennar eru einkennandi fyrir hennar listsköpun. Hún var fulltrúi okkar Íslendinga á Feneyjartvíæringnum árið 2019 og hefur meðal annars unnið með Björk Guðmundsdóttur og fyrirtækjum á borð við &Other stories, Hay og Moncler. Þá hefur hún einnig sett upp listasýningar víða um heiminn.

Búin að sanna sig fyrir sjálfri sér

Hrafnhildur segir að þrátt fyrir að egóið sé í raun óumflýjanlegt er farið að vera auðveldara fyrir hana að láta það ekki ráða förinni.

„Maður er líka kannski búinn að sanna sig fyrir sjálfri sér og svo veit ég líka að það sem kemur frá mér, það er einfaldlega það sem kemur frá mér í dag. Ég stend með því og ég stend undir því. Það er það besta sem ég er að gera núna og það gerðist af alls konar ástæðum og aðstæðum og það er spennandi. Það er líka mikilvægt að leyfa sér að skipta um skoðanir. Þetta snýst svo mikið um að koma sér á óvart, koma sjálfum sér á óvart og hvort öðru á óvart.“

Mikilvægt að vera þátttakandi í íslensku menningarlífi

Þrátt fyrir að hafa verið búsett erlendis í langan tíma þykir Hrafnhildi bæði gott og mikilvægt að halda alltaf góðri tengingu við Ísland.

„Ég er svo ánægð að ég hafi valið New York því þetta er svo nálægt og mig langaði að vera einhvers staðar þar sem ég fengi annan púls í samfélagi sem er svona fjölþjóðlegt. Ég held að mér líði vel þar af því ég hef svo greiðan aðgang að Íslandi. Hér heima á ég rosalega stóra og góða fjölskyldu og það skiptir mig miklu máli að vera þátttakandi í íslensku menningarlífi. Það hefur mér tekist sem er frábært, að hverfa bara ekki út í heim,“ segir Hrafnhildur kímin.

„Börnin mín eru fædd í New York en þau koma líka með mér hingað heim. Þegar Covid skall svo á var ég ekki lengi að koma hingað með dóttur mína og við vorum hér í eitt og hálft ár. Þá hafði ég ekki verið hérna í fjórar árstíðir í röð í þrjátíu ár.“

Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.