Sport

Heimsmeistari tekur við af heimsmeistara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fabio Grosso tekur nú við sem þjálfari Lyon. Hér sést hann í leik með liðinu árið 2008.
Fabio Grosso tekur nú við sem þjálfari Lyon. Hér sést hann í leik með liðinu árið 2008. Nordic Photos / AFP

Laurent Blanc var á dögunum rekinn úr starfi sínu sem þjálfari Lyon. Ítalski þjálfarinn og fyrrum leikmaðurinn Fabio Grosso tekur við af honum. 

Laurent Blanc er fyrrum landsliðsmaður Frakklands og vann bæði Evrópu- og heimsmeistaratitil fyrir landið. Hann var ráðinn til starfa hjá Lyon í október í fyrra og stýrði liðinu til 7. sætis í deildinni. Það dugði ekki til að ná sæti í Evrópukeppni, sem var mikið áfall fyrir liðið og gerði slæma fjárhagsstöðu félagsins enn verri. 

Lyon neyddist til að selja fjölda leikmanna í sumar og misstu frítt frá sér stjörnur á borð við Hassem Aouar, Moussa Dembelé og Toko-Ekambi. Liðið fór því mjög laskað inn í þetta tímabil, hefur aðeins náð 1 stigi í fyrstu fjórum leikjum sínum og situr í neðsta sæti frönsku deildarinnar. 

Beðið er eftir formlegri tilkynningu frá félaginu en Fabrizio Romano staðfestir á Twitter síðu sinni að fyrrum landsliðsmaður Ítala, Fabio Grosso, sé að taka við liðinu. 

Fabio Grosso var hetja Ítala á HM 2006, setti sigurmarkið í undanúrslitaleik og skoraði svo úr vítaspyrnunni sem tryggði þeim heimsmeistaratitilinn. Grosso spilaði svo með Lyon árin 2007–2009. Hann þjálfaði Frosinone á síðasta tímabili og tókst að stýra þeim upp í efstu deild á Ítalíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×