Lífið

Bréf dóttur upphafið að ógleymanlegu bónorði

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
image_123650291 (1)
Aðsend

Dóra Dúna Sighvatsdóttir ljósmyndari og Guðlaug Björnsdóttir förðunarfræðingur eru orðnar hjón. Þær trúlofuðu sig á Ítalíu í fyrra eftir rómantískt bónorð sem byrjaði á fallegu bréfi dóttur Guðlaugar sem fékk gesti til að fella tár. Nánustu vinir og fjölskylda fögnuðu með hjónunum í Fríkirkjunni í Reykjavík um helgina. 

„Það kom engin önnur kirkja til greina því þetta er eina kirkjan sem opnar faðm sinn gagnvart samkynhneigð,“ segir Guðlaug.

Fríkirkjan hafi verið sú fyrsta til að leyfa brúðkaup samkynhneigða innan sinna veggja eftir að þau voru leyfð hér á landi. Þá opni kirkjan dyr sínar fyrir allri trú. 

Guðlaug og Dóra giftu sig í Fríkirkjunni í Reykjavík.Aðsend

„Fyrir utan það augljósa, þetta er fallegasta kirkja landsins,“ segir Guðlaug.

Séra Hjörtur Magni Jóhannsson gaf þær saman en hann skírði yngstu dóttur þeirra þremur vikum fyrr. Hún fékk nafnið Ragnhildur Sesselja en hún kom í heiminn í júní. Fyrir á Guðlaug tvo syni og eina dóttur.

Eftir fyrsta kossinn vissu þær hvað þær vildu.Aðsend

Að athöfn lokinni var haldið á veitingastaðinn Hjá Jóni við Austurvöll þar sem gengið var með dótturina í vagninum með fram Tjörninni í blíðskaparveðri.

„Við fengum ljúffengan mat og skáluðum í kampavíni sem elsku besta tengdamamma og amma var búin að kaupa,“ segir Guðlaug. 

„Dagurinn var yndislegur í alla staði þar sem við vorum umkringdar okkar besta fólki. 

Fimm vikna dóttir okkar var meðal gesta og var aðalstjarna kvöldsins, alsæl með alla athyglina.“
Á leið út að borða eftir athöfnina.Aðsend

Ítalskt brúðkaup í vændum

Aðspurð um brúðarfötin segir Guðlaug þær hafi ákveðið að velja látlausan klæðnað þar sem stefnan sé sett á stóra veislu síðar.

„Ég var í kjól sem var keyptur í Gallerí 17 og Dóra klæddist svartri skyrtu frá okkar uppáhalds merki MAISON MARGIELA,“ segir Guðlaug sem fékk Hlín Reykdal, vinkonu sína og skartgripahönnuð, til að útbúa blómvönd úr blómum sem voru tínd við Esjurætur kvöldið fyrir athöfnina. 

Nýgiftar í blíðviðrinu.Aðsend

Brúðhjónin eru stödd í minniháttar brúðkaupsferð í Riga í Lettlandi, ásamt yngstu dóttur þeirra, þar sem foreldrar Dóru eru búsett. 

„Við ákváðum að skella okkur í dekur til tengdó þar sem pössun er innifalin. Við fáum þá tækifæri til skreppa á nokkur deit,“ segir Guðlaug.

Samstíga frá byrjun

Guðlaug og Dóra byrjuðu saman fyrir einu og hálfu ári, í byrjun árs 2022. Á þeim tíma hafa þær flutt inn saman, eignast barn og gengið í hjónaband. 

„Eftir fyrsta kossinn vissum við báðar að við þráðum ekkert heitar en að vera saman, sem er líklega ástæðan fyrir því hvað hlutirnir gerast hratt,“ segir Guðlaug. 

„Þetta er ást sem átti alltaf að verða.“
Aðsend

Eftir átta mánaða samband bað Dóra um hönd Guðlaugar þar sem þær voru staddar í fríi á Ítalíu.

„Þegar ég kynntist Dóru vissi ég að hana dreymdi um að eignast börn. Hún veit hvað hún vill þannig að hugmyndir hennar og atferli í lífinu kemur því ekkert á óvart,“ segir Guðlaug kímin. Sagan á bak við bónorðið er falleg.

Bónorðið grætti heilan veitingastað

„Við tókum skyndiákvörðun í ágúst í fyrra að fara í frí til Ischia á Ítalíu. Fyrsta daginn römbuðum við inn á dásamlegan veitingastað við ströndina með betri mat sem ég hef fengið og æðislegri þjónustu. Þá var Gay-fánanum flaggað sem dró okkur enn meira að staðnum,“ segir Guðlaug.

Dóra Dúna og Guðlaug hamingjusamar og trúlofaðar.Aðsend

„Mánuði síðar vorum við aftur komnar á sama stað, þá með fjölskyldu okkar í tilefni af afmæli vinkonu okkar Önnu Þóru. Um morguninn hafði Dóra orð á því í hvaða fötum ég ætlaði að vera áður en við myndum sigla yfir í eyjuna. Það er afar ólíkt henni,“ segir Guðlaug sem kveðst hafa verið grunlaus um ráðabrugg kærustunnar.

„Við vorum sestar á veitingastaðinn okkar ásamt tengdamömmu minni og Bjarna bróður Dóru, til að fá okkur hádegismat. Allt í einu fannst mér stemmningin við borðið afar skrítin og sá að Bjarni, sem sat á móti mér, var með tárin í augunum og aðrir gestir farnir að fella tár,“ segir Guðlaug.

„Ég skildi nákvæmlega ekkert hvað var á seiði.“

Dóra rétti Guðlaugu bréf sem Sóllilja dóttir þeirra hafði skrifað Dóru. Í bréfinu tjáði Sóllilja sig um hamingju móður sinnar sem hún hafði sjaldan séð skína jafn skært fyrr en hún kynntist Dóru.

Kvöldið þegar þær trúlofuðu sig.Aðsend

„Ég gat ekki haldið tárunum aftur við lesturinn sem endaði síðan með bónorði frá Dóru. Þetta var svo endalaust fallegt móment sem við gleymum aldrei,“ segir Guðlaug. 

Hún lýsir því hvernig allur staðurinn hafi staðið upp og skálað fyrir ástfangna parinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×