Innlent

Ást­ráður skipaður ríkis­sátta­semjari

Máni Snær Þorláksson skrifar
Ástráður Haraldsson í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í vor.
Ástráður Haraldsson í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í vor. Vísir/Vilhelm

Ástráður Haraldsson hefur verið skipaður í embætti ríkissáttasemjara til fimm ára frá og með 18. júlí næstkomandi. Sex sóttu um starfið en hæfnisnefnd taldi að tveir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna embættinu.

Það var svo mat Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að Ástráður uppfylli best þær kröfur sem gerðar eru til ríkissáttasemjara. Hann var settur ríkissáttasemjari í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í vor. Auk þess var hann settur ríkissáttasemjari frá 1. júní síðastliðnum.

Umsækjendur voru metnir af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af félags- og vinnumarkaðsráðherra. Nefndin skilaði álitsgerð sinni þann 10. júlí síðastliðinn og var niðurstaða hennar að tveir umsækjendur væru „mjög vel hæfir“ til að gegna embættinu.

Umsækjendur um embættið voru eftirtaldir:

  • Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við viðskiptadeild HR og forstöðumaður MBA-náms og aðstoðarríkissáttasemjari
  • Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari
  • Hilmar Már Gunnlaugsson, lyfjafræðingur
  • Maríanna Hugrún Helgadóttir, formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga
  • Muhammad Abu Ayub, vaktstjóri
  • Skúli Þór Sveinsson, sölumaður

Ástráður lauk embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi ári síðar og var skipaður hæstaréttarlögmaður árið 1995. Hann starfaði sem lögmaður þar til hann tók við embætti héraðsdómara í janúar árið 2018.

Hann starfaði í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2019 þar til hann tók við embætti dómara við Félagsdóm árið 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×