Innlent

Styrk­leiki hversu margir eru af er­lendu bergi brotnir

Bjarki Sigurðsson skrifar
Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar.
Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar. Vísir/Sigurjón

Þótt skólakerfið í Reykjanesbæ hafi tekist á við miklar áskoranir með fjölgun flóttamanna í bæjarfélaginu, segir sviðsstjóri menntasviðs það einnig fela í sér styrkleika hversu margir nemenda eru af erlendu bergi brotnir.

Í Reykjanesbæ eru starfræktir sjö grunnskólar og hefur grunnskólanemum á svæðinu fjölgað ört síðustu ár.  Hefur bærinn þurft að reisa nýjar byggingar í takt við fjölgunina.

Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, segir að bærinn nái rétt að halda í við fjölgunina.

„Við höfum verið að bregðast við með þeim hætti en það virðist ekkert lát vera á þessari fjölgun þannig við verðum að halda áfram að byggja. Þetta snýr ekki einungis að húsnæði heldur að fagfólki til að vinna störfin. Það hefur verið mikil áskorun að ná í fagfólk, gengið býsna vel en krefjandi verkefni,“ segir Helgi.

Íbúum í Reykjanesbæ hefur fjölgað gífurlega síðustu ár og eru fleiri og fleiri íbúar af erlendu bergi brotnir. Helgi segir það einnig endurspeglast í skólakerfinu.

„Við lýtum á það sem styrkleika, ekki bara sem áskorun. Það er mikill styrkleiki sem við horfum á í því efni og erum mjög stolt af. Grunnstefna sveitarfélagsins heitir í krafti fjölbreytileikans og það er meðal annars eitt af leiðarljósum nýrrar menntastefnu sveitarfélagsins. Þannig við horfum til þess að börn sem koma með þekkingu og reynslu frá öðrum löndum eru auðlind inn í skólakerfið. Að sama skapi er það líka áskorun, það kallar á fjölbreyttari kennsluhætti og fleira í þeim dúr. Við erum svolítið að læra jafn óðum í þessu,“ segir Helgi.

Hann þvertekur fyrir það að börn í bænum fái verri kennslu vegna fjölgunar nemenda með annað móðurmál en íslensku.

„Það vil ég alls ekki meina, það er mjög blómlegt starf í leik- og grunnskólum hér í Reykjanesbæ og mjög öflugt þróunar- og skólastarf,“ segir Helgi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×