Sport

29 ára Íslandsmet Jóns Arnars í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Ingi Egilsson vann silfur á Norðurlandamótinu á dögunum þegar hann stökk 7,53 metra en hann bætti seinna þann árangur með því að stökkva 7,92 metra.
Daníel Ingi Egilsson vann silfur á Norðurlandamótinu á dögunum þegar hann stökk 7,53 metra en hann bætti seinna þann árangur með því að stökkva 7,92 metra. Instagram/@icelandathletics

Jón Arnar Magnússon stökk átta metra slétta í langstökki í Bikarkeppni FRÍ í ágúst 1994. Svo langt hefur enginn íslensku langstökkvari stokkið, hvorki fyrr né síðar.

Það er samt einn öflugur íslenskur langstökkvari sem er farinn að ógna þessu 29 ára gamla meti Jóns Arnars.

FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson stökk 7,92 metra á Copenhagen Athletics Games fyrr í þessum mánuði sem er aðeins átta sentímetrum frá Íslandsmetinu.

Daníel Ingi hafði stokkið lengst 7,18 metra fyrir þetta tímabil en hefur átt sex stökk yfir 7,45 metra á þessu tímabili. Þessi rosalega bæting gefur tilefni til bjartsýni að metið geti fallið.

Daníel setti persónulegt met með því að stökkva 7,61 metra 3. júní og bætti það síðan um 31 sentimeter aðeins fjórum dögum síðar.

Þetta langa stökk komst upp í annað sætið yfir lengsta langstökk Íslendings fyrr og síðar en þar sat áður Kristján Harðarson sem átti Íslandsmetið áður en Jón Arnar sló það 1994. Kristján stökk 7,80 metra í mars 1984.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessu frábæra stökki Daníels Inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×