Sport

Eins og að hlaupa tvö maraþon og ellefu Esjur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Snorri þegar hann kom í mark en hann endaði í sæti 33 á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi.
Snorri þegar hann kom í mark en hann endaði í sæti 33 á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi. Mynd/sigurður Pétur Jóhannsson

Ljósmyndarinn Snorri Björnsson tók þátt á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi í Austurríki á föstudaginn og náði frábærum árangri. Hann er loksins farinn að sætta sig við það að kalla sig hlaupara.

Hlaupið fór fram í Innsbruck í Austurríki og hafnaði Snorri í 33.sæti mótsins í 85 kílómetra hlaupi. Hann fór vegalengdina á rúmlega ellefu klukkustundum.

„Ég er svona að sætta mig við það og horfast í augu við það að ég sé orðinn hlaupari. Ég var alltaf bara í Crossfitinu en síðan fór maður svona hægt og rólega að fara hlaupa og síðan fór maður yfir í maraþonið en átti alltaf erfitt með að kalla mig hlaupa miðið við tímana sem ég var að fara á. En núna segir ég við sjálfan mig að ég sé hlaupari,“ segir Snorri Björns og heldur áfram.

„Þetta er svona aðeins öðruvísi hlaup en maraþon því þá er hlaupið á jafnsléttu. Þetta er í raun andstæða og þú þarft að eiga við hæðarmetra. Ef við setjum þetta í samhengi þá er hækkunin þarna 6500 metra, svona eins og ellefu Esjur og svo er hlaupið tvö maraþon. Svo kemur ofan í þetta háfjallaloft, erfiðir stígar og mikill hiti.“

Snorri segir að hlaupið hafi sannarlega tekið á en ekki það erfiðast sem hann hefur gert.

„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá myndi ég segja að þegar ég fór fyrst Laugaveginn þá hafði ég aldrei upplifað aðra eins þjáningu, sjokk og áreynslu. Ég var bara eftir mig dagana, vikurnar og mánuðina eftir það hlaup. Þá vissi ég ekki við hverju ég átti að búast en núna er ég kominn með smá vott af reynslu, þó þetta hafi vissulega verið erfiðara hlaup.“

Hann segist hafa verið með skýrt plan í hausnum allt hlaupið.

„Ég ætlaði bara að hlaupa mjög öruggt í byrjun og fara í rauninni of hægt ef ég gæti. Ef ég ætti eitthvað inni þá myndi ég taka það út í lokin, það var planið,“ segir Snorri en það kom honum verulega á óvart að hann skildi ná að lenda í sæti 33 á heimsmeistaramóti og er hann gríðarlega stoltur af afrekinu.

Hér að neðan má sjá viðtal við Snorra sem var í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×