Menning

Ballið búið í Háskólabíói

Árni Sæberg skrifar
Kivkmyndahússrekstur legst af í Háskólabíói um mánaðarmótin.
Kivkmyndahússrekstur legst af í Háskólabíói um mánaðarmótin. Vísir/Vilhelm

Sena hefur ákveðið að segja upp leigusamningi sínum um rekstur kvikmyndahúss í Háskólabíói frá og með næstu mánaðamótum. Framkvæmdastjóri Smárabíós, sem var þar til nýverið framkvæmdastjóri kvikmyndasviðs Senu, segir að aðsóknin hafi hreinlega ekki verið næg.

Í frétt Ríkisútvarpsins, sem greindi fyrst frá málinu, segir að með lokun Háskólabíós ljúki 62 ára rekstri kvikmyndahúss í húsnæðinu.

Konstantín Mikael Mikaelsson, framkvæmdastjóri Smárabíós, segir í samtali við Vísi að tap hafi verið á rekstri Háskólabíós frá því fyrir heimsfaraldur. Rekstur Smárabíós hafi hins vegar náð að rétta úr kútnum, og vel það, og því hafi verið ákveðið að Sena myndi einbeita sér að rekstri þess.

Aðstaðan í Háskólabíó hafi verið þannig að hún mætti ekki kröfum viðskiptavina og því hafi þeir frekar sótt önnur kvikmyndahús. 

Spurður um áhrif lokunar Háskólabíós á framboð á kvikmyndamarkaði segir Konstantín Mikael ljóst að hún muni hafa nokkur áhrif á framboðshliðina. Kvikmyndir, sem eru minni í sníðum og hafa hingað til frekar verið sýndar í litlum sölum í Háskólabíói, muni ekki endilega flytjast yfir í Smárabíó.

Þó hafi efling Bíó Paradísar undanfarin ár mætt þörfum þeirra sem vilja sjá slíkar kvikmyndir og hann vonist til þess að Bíó Paradís eflist enn frekar.

Ríkisútvarpið hefur eftir Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra stjórnsýslu Háskóla Íslands, að uppi séu hugmyndir um að nýta Háskólabíó áfram undir tónleika, ráðstefnur, fundi og kennslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×