Sport

Anni­e Mist tryggði sér sæti á heims­­leikunum

Aron Guðmundsson skrifar
Annie Mist eftir að sætið á heimsleikunum var tryggt.
Annie Mist eftir að sætið á heimsleikunum var tryggt. Vísir/Getty

Anni­e Mist Þóris­dóttir tryggði sér í dag sæti á heims­leikunum í Cross­Fit með frá­bærum árangri á undan­úr­slita­móti í Ber­lín.

Þegar að allar greinar mótsins voru frá var ljóst að Anni­e myndi enda í 2. sæti mótsins en ellefu efstu kepp­endurnir í kvenna­flokki tryggðu sér far­miða á heims­leikana.

Þetta verður í tólfta skipti sem Anni­e Mist tekur þátt á heims­leikum Cross­Fit í einstaklingsflokki, leikum sem hún hefur í tví­gang unnið. 

„Ég skil í fullri hreinskilni ekki hvernig ég er enn að taka þátt í CrossFit á þessu gæðastigi,“ sagði Annie í viðtali eftir að sætið á heimsleikunum var tryggt. „Ég hélt í upphafi að ferill minn myndi aðeins endast í þrjú til fjögur ár en ég hef alltaf bara tekið eitt ár í einu og einhvern veginn er ég enn hérna.“

Hún segir CrossFit vera ástríðu sína.

„Ég elska að æfa en verð alltaf mjög stressuð þegar kemur að keppni. En um leið og ég heyri í fólkinu mínu í stúkunni breytist allt. Ég heyri í ykkur og finn þá fyrir miklu þakklæti yfir því að ég fái tækifæri til þess að upplifa þetta.“

Þá segist hún leggja í þessa vegferð á þessu ári fyrir fjölskyldu sína, sér í lagi unga dóttur sína. 

„Ég vil reyna að brjóta niður þá múra setta af öðrum, þess efnis að okkar tími sé liðinn á einhverjum ákveðnum tímapunkti. Það er undir okkur sjálfum komið að taka þá ákvörðun.“

Á heims­leikunum mun Anni­e hitta fyrir fjóra ís­lenska kollega sína. Katrín Tanja Davíðs­dóttir, Breki Þórðar­son og Bergrós Björns­dóttir hafa öll tryggt sér sæti á leikunum sem fara fram í Madi­son, Wisconsin í Banda­ríkjunum dagana 3.-6. ágúst næst­komandi.

Þuríður, Sara og Sól­veig sitja eftir

Þuríður Erla Helga­dóttir var 24 stigum frá sæti sem myndi tryggja henni far­miða á heims­leikana í ágúst fyrir loka­grein dagsins. Þuríður var á flottu skriði, endaði í fimmta sæti síns riðils og endaði yfir heildina litið í 15. sæti á undan­úr­slita­mótinu. Hún mun því ekki taka þátt á heims­leikunum í ágúst

Ragn­heiður Sara 40 stigum frá sæti sem myndi tryggja henni far­miða á heims­leikana í ágúst fyrir loka­grein dagsins og hún ætlaði ekki að enda mótið á ró­legu nótunum. Sara var virki­lega öflug í loka­greininni allt fyrir loka­um­ferð hennar en þar fataðist henni flugið.

Þegar allir riðlar voru frá var ljóst að Sara myndi enda í 19.sæti mótsins. Hún verður því ekki á meðal kepp­enda á heims­leikum Cross­fit í ágúst en hún hefur í tví­gang unnið brons­verð­laun á leikunum, árin 2015 og 2016

Sól­veig Sigurðar­dóttir, sem tryggði sér sæti á heims­leikunum í fyrra í fyrsta skipti, tókst því miður ekki að tryggja sér far­miða á leikana þetta árið. Sól­veig getur þó verið stolt af sinni fram­göngu um helgina en best náði hún að enda í níunda sæti og var það í fjórðu grein mótsins. Þá endaði hún, í heildina litið, í 24. sæti á mótinu.

Seinna í dag verður það síðan ljóst hvort að Björgvin Karl Guðmundsson sláist í för með Annie Mist og tryggi sér sæti á heimsleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×