Sport

„Náðum að þreyta þá og þeir tóku skot úr erfiðum stöðum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Erlingur Richardsson og Magnús Stefánsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Erlingur Richardsson og Magnús Stefánsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann fjögurra marka útisigur gegn FH 27-31. Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur í fyrsta leik í undanúrslitum gegn FH. 

„Þetta var jafn leikur lengi vel og við vorum klaufar að hafa verið einu marki undir í hálfleik. Síðasta sóknin var hræðileg og svo var þetta barátta. Það kom smá frost á þetta þegar þeir fóru að vera með einn fyrir framan í vörn og þá þurftu þeir aftur að bregðast við,“ sagði Erlingur Birgir Richardsson eftir leik.

Eyjamenn voru miklir klaufar í fyrri hálfleik og Erlingur var ekki sáttur með öll mistökin sem ÍBV gerði í fyrri hálfleik.

„Þetta var bara klúður hjá okkur og svona hlutir eiga ekki að gerast. Við verðum að fara að laga þessa hluti. Við vorum aular og að gera tvær rangar skiptingar er ekki boðlegt þegar maður er kominn svona langt.“

Erlingur var afar ánægður með varnarleikinn hjá ÍBV í síðari hálfleik.

„Varnarleikurinn var mjög þéttur og Pavel [Miskevich] var að verja vel. Við náðum að þreyta þá og þeir tóku skot úr erfiðum skotum en þetta var bara einn leikur.“

Þetta var mjög taktískur leikur og Erlingur tók undir það að þessi leikur bar þess merki að bæði lið fengu nægan tíma til að undirbúa sig.

„Bæði lið áttuðu sig á hvað andstæðingurinn var að fara að gera. Stundum er ekki gott að fara í pásu og maður vill halda takti eins og sást fyrsta korterið þar sem bæði lið gerðu mistök,“ sagði Erlingur Birgir Richardsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×