Innlent

Inn­leiða þurfi aftur aga til að bregðast við of­beldis­öldu og ópíóða­fíkn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigmundur segir að grípa þurfi til drastískra aðgerða.
Sigmundur segir að grípa þurfi til drastískra aðgerða. Vísir/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að innleiða þurfi aftur aga og skilning á því hvað má og má ekki til að bregðast við öldu ofbeldis, aukinni skipulagðri glæpastarfsemi og fíkniefnafaraldri. Gefa þurfi skólastjórendum og lögreglu tækifæri til að senda skýr skilaboð og fylgja þeim eftir. 

Þetta sagði Sigmundur á þingfundi fyrr í dag. Hann bendir í upphafi ræðu sinnar á að ríkislögreglustjóri hafi ítrekað varað við aukinni skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi og kallað eftir aðgerðum til að bregðast við. 

„Við horfum líka upp á fíkniefnafaraldur, ekki hvað síst ópíóðafaraldur, sem borist hefur til Íslands. Nú heyrum við í auknum mæli, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, fréttir af auknu ofbeldi meðal ungmenna og vopnaburði meðal barna og annarra ungmenna,“ segir Sigmundur. 

Þetta kalli á viðbrögð stjórnvalda og samfélagsins alls.

„Hluti af þeim viðbrögðum hlýtur að vera að innleiða hér aftur ákveðinn aga og skilning á því hvað má og hvað má ekki og gefa skólastjórnendum og lögreglu tækifæri til að senda skýr skilaboð og fylgja þeim eftir,“ segir Sigmundur. 

Segir það enga lausn að lögleiða fíkniefni

Hann bendir á að þegar óöld ríkti í New York borg hafi svokallaðri rúðubrotskenningu verið fylgt til að takast á við glæpaöldu. 

„Sem fólst í því að taka hart á minni afbrotum, rúðubrotum og veggjakroti, gera strax við þar sem skemmdir höfðu verið unnar og fylgja því eftir. Hér er veggjakrot, að mati stjórnvalda, líklega bara list og skortur er á vilja til að fylgja eftir skilaboðum um hvað telst ásættanlegt og hvað ekki,“ segir Sigmundur. 

Hann gagnrýnir að stjórnvöld hafi talað fyrir lögleiðingu fíkniefna. 

„Það er ekki hægt að taka á vandanum með því að lögleiða glæpina. Við þurfum að gefa lögreglu og öðrum stjórnvöldum hér tækifæri til að takast á við þennan vanda og gera það af þeirri festu sem þessi stigvaxandi vandi samfélagsins kallar á.“


Tengdar fréttir

Stúlkan segir átökin aðallega hafa verið á milli tveggja

Sautján ára stúlka, sem sleppt var úr haldi í gær eftir úrskurð Landsréttar þess efnis, lýsir atburðarásinni sem leiddi til dauða manns á þrítugsaldri fyrir helgi sem átökum sem hafi aðallega verið á milli tveggja. Doktor í afbrotafræði segir að stjórnvöld verði að ráðast í aðgerðir gegn vopnaburði ungmenna ekki seinna en strax.

Aukin heimild til eftir­lits nái frum­varpið fram að ganga

Nýtt frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum felur í sér að lögregla fái heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi, án þess þó að þeir séu grunaðir um afbrot. Frumvarpið felur einnig í sér að eftirlit með störfum lögreglu verður eflt frá núverandi mynd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×