Sport

UFC snýr aftur á heimavöll Gunnars í júlí

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Nelson átti ekki í neinum vandræðum með Bryan Barberena er þeir mættust í London í mars fyrr á þessu ári
Gunnar Nelson átti ekki í neinum vandræðum með Bryan Barberena er þeir mættust í London í mars fyrr á þessu ári Getty/Catherine Ivill

UFC snýr aftur til London í sumar og verður bar­daga­kvöld sam­bandsins á dag­skrá í O2-höllinni þann 22. júlí næstkomandi. Frá þessu var greint í gær­kvöldi en orð­rómur hafði verðið á kreiki um að UFC væri að snúa aftur til London.

O2-höllinn hefur verið heima­völlur Ís­lendingsins Gunnars Nel­son undan­farið og því spurning hvort hann hugsi sér gott til glóðarinnar og vilji snúa aftur í bar­daga­búrið í sumar.

Gunnar barðist síðast þann 18. mars síðast­liðinn, á bar­daga­kvöldi UFC í London, og vann hann þar yfir­burða­sigur á Bry­an Bar­berena með upp­gjafar­taki í fyrstu lotu.

Þar með hefur Gunnar unnið tvo bar­daga í röð og báðir hafa þeir farið fram í O2-höllinni.

Í kjöl­far sigursins á Bar­berena var kast­ljósið komið á Gunnar og í upp­hafi mánaðarins steig kollegi hans í velti­vigtar­deildinni, Michael Chiesa, fram og sagðist vilja berjast við Gunnar.

„Ég myndi elska að berjast við Gunnar Nel­son, ég tel að hann yrði verðugur and­stæðingur. Ég veit að hann er laus og hefur á­huga á þessu líka. Vonandi getum við látið verða af þessu,“ sagði Chiesa í þættinum The MMA Hour.

Á þeim tíma var orð­rómurinn, um mögu­legt bar­daga­kvöld UFC í London þann 22. Júlí, kominn á kreik en enn sem komið er hefur Gunnar ekki tjáð sig um um­mæli Chiesa.

Hátt skrifaður bardagakappi

Michael Chiesa er, líkt og Gunnar, afar reynslu­mikill bar­daga­kappi og hátt skrifaður á styrk­leika­lista velti­vigtar­deildar UFC.

Þegar þessi frétt er skrifuð situr Chiesa í 12. sæti á styrk­leika­lista velti­vigtar­deildarinnar en Gunnar er ekki á meðal 15 efstu á þeim lista.

Bar­dagi við Chiesa, sem á að baki 18 sigra í blönduðum bar­daga­listum á sínum at­vinnu­manna­ferli, sér í lagi ef hann endar með sigri Gunnars ætti því að verða til þess að hann myndi skjótast ofar­lega á styrk­leika­lista UFC.

Hins vegar er ó­ljóst á þessari stundu hvort Gunnar hyggist snúa aftur í bar­daga­búrið svona fljótt eftir síðasta bar­daga sinn. Í við­tölum eftir bar­dagann gegn Bar­berena mátti lesa í orð Gunnars að hann væri ekkert að stressa sig á hlutunum og lægi ekkert á að á­kveða næstu skref strax.

Það vinnur þó með honum að hafa komist í gengum bar­dagann gegn Bar­berena ó­skaddaður og því for­vitni­legt að sjá hvað næstu vikur bera í skauti sér.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×