Erlent

Dalai Lama bað ungan dreng að sjúga á sér tunguna

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Dalai Lama hefur beðist afsökunar á atvikinu.
Dalai Lama hefur beðist afsökunar á atvikinu. EPA

Tenzin Gyatso, hinn helgi Dalai Lama í tíbetskum búddisma, hefur beðist afsökunar á óviðeigandi framkomu sinni gagnvart ungum dreng á viðburði í Indlandi. Dalai Lama kyssti drenginn á munninn og bað hann um að sjúga á sér tunguna.

Samkvæmt breska blaðinu The Guardian átti atvikið sér stað seint í febrúarmánuði síðastliðnum í musteri Dalai Lama í Dharamsala. En Dalai Lama hefur búið í útlegð í Indlandi síðan hann var hrakinn frá Tíbet af Kínverjum árið 1959.

„Hérna líka“

Um eitt hundrað ungir nemendur voru á viðburðinum og náðist atvikið umrædda á myndband. Sést þar að einn nemendanna, ungur drengur, kemur að hljóðnema og spyr hvort hann megi faðma Dalai Lama.

Segir þá Dalai Lama, sem er 87 ára gamall, að drengurinn megi koma til sín upp á svið. Bendir hann drengnum á að kyssa sig á kinnina og segir „fyrst hérna.“ Dalai Lama hélt í hendina á drengnum og segir „hérna líka“ og kyssir hann á munninn. „Og sjúgðu svo tunguna á mér,“ sagði Dalai Lama svo og setti út á sér tunguna.

Drengurinn setti út tunguna sína en fór svo frá en Dalai Lama hló að drengnum og faðmaði hann. Hlógu allir viðstaddir að þessu atviki.

Afsökunarbeiðni

Eftir að myndbandið fór á flug hefur Dalai Lama fengið harða gagnrýni. Hefur framkomunni verið lýst sem óviðeigandi eða jafn vel viðbjóðslegri. Sjálfur hefur Dalai Lama sagt að þetta hafi verið saklaust af sinni hálfu. Engu að síður hefur Dalai Lama beðist afsökunar.

„Hinn heilagi biður drenginn og fjölskyldu hans afsökunar, sem og marga vini um allan heim, fyrir hin skaðlegu orð. Hinn heilagi stríðir oft fólki sem hann hittir, jafn vel fyrir framan myndavélar. Biðst hann afsökunar á þessu,“ segir í yfirlýsingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×