Sport

NFL-karlarnir duglegir að kaupa hlut í kvennaliðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthew Stafford spilar með Los Angeles Rams og varð meistari með liðinu í fyrra.
Matthew Stafford spilar með Los Angeles Rams og varð meistari með liðinu í fyrra. Getty/Harry How

Leikstjórnandinn Matthew Stafford hefur nú bæst í hóp margra NFL-stjarna sem hafa fjárfest í kvennaliðum í Bandaríkjunum. Það er gott dæmi um sýnileika og framtíðarhorfur kvennaíþróttanna í landinu að bestu íþróttakarlarnir sjá þar tækifæri.

Stafford var kosinn mikilvægasti leikmaður Super Bowl leiksins í fyrra þegar Los Angeles Rams vann titilinn.

Stafford er núna búinn að kaupa hlut í kvennaliðinu Angel City frá Los Angeles en það er eitt mest spennandi kvennafótboltalið landsins.

Angel City hefur margra heimsfræga hluthafa eins og leikkonurnar Natalie Portman, Gabrielle Union og Evu Longoria, knattspyrnugoðsagnirnar Abby Wambach, Julie Foudy og Mia Hamm, skíðakonuna fyrrverandi Lindsey Vonn og tennis goðsagnirnar Billie Jean King og Serenu Williams.

Stafford kaupir i félaginu í samstarfi við eiginkonu sína Kelly en þau eiga saman fjórar dætur eða þær Chandler, Sawyer, Hunter Hope og Tyler Hall.

Aðeins nokkrum dögum fyrr fréttist af því að Tom Brady hefði keypt hluti í WNBA liðinu Las Vegas Aces.

Áður hafði Patrick Mahomes keypt í kvennaliði Kansas City Current.

Stóru stjörnurnar í NFL-deildinni eru að fá rosaleg laun og hafa því möguleika að fjárfesta í íþróttafélögum en það er gaman að sjá þá líka kaupa í kvennafélögunum sem er vissulega tákn um breytta tíma.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×