Erlent

Biden sagður munu leggja blessun sína yfir um­fangs­mikla olíu­borun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heimildarmenn NYT segja stjórnvöld ekki telja sig hafa heimild til að koma í veg fyrir boranir ConocoPhillips.
Heimildarmenn NYT segja stjórnvöld ekki telja sig hafa heimild til að koma í veg fyrir boranir ConocoPhillips. AP/ConocoPhillips

New York Times hefur eftir embættismönnum innan stjórnkerfis Bandaríkjanna að stjórnvöld muni í dag samþykkja umfangsmiklar olíuboranir í Alaska, sem munu mögulega gefa af sér 600 milljón tunnur af hráolíu á 30 ára tímabili.

Ákvörðun stjórnvalda um að heimila olíuvinnsluna hefur verið harðlega gagnrýnd en áætlað er að nýting olíunnar muni leiða til losunar nærri 280 milljón tonna af kolefnum í andrúmsloftið, sem jafngildir 9,2 milljón tonnum af kolefnismengun árlega.

Um er að ræða losun á við tvær milljónir bifreiða.

Samkvæmt New York Times munu stjórnvöld einnig tilkynna um verulegar takmarkanir á olíuborun í Norður-Íshafi og gefa út nýjar reglur til að vernda um það bil 16 milljón ekrur í National Petroleum Reserve-Alaska.

Gagnrýnendur segja fyrirhugaðar aðgerðir hins vegar ekki munu draga úr áhyggjum manna vegna svokallaðs Willow-verkefnis, þar sem olíurisinn ConocoPhillips er í fararbroddi.

Talsmenn olíuiðnaðarins og þingmenn í Alaska eru sagðir hafa verið duglegir við að þrýsta á Joe Biden Bandaríkjaforseta um að samþykkja olíuborunina, sem mun fara fram innan National Petroleum Reserve-Alaska.

Þá segja talsmenn stéttarfélaga og fleiri að framkvæmdirnar muni skapa 2.500 störf og afla stjórnvöldum 17 milljarða dala í tekjur.

Umhverfisverndarsinnar og fulltrúar frumbyggja hafa hins vegar mótmælt harðlega og segja samþykki forsetans svik við loforð hans um að draga úr þörf Bandaríkjanna á jarðefnaeldsneyti. Þá hefur Alþjóðaorkumálastofnunin sagt að stjórnvöld vestanhafs verði að hætta að samþykkja ný olíu-, gas- og kolaverkefni ef heimsbyggðinni á að takast að milda áhrif loftslagsbreytinga.

Samkvæmt New York Times hyggjast stjórnvöld samþykkja heimildir til borunar á þremur svæðum en hafna umsóknum um tvö svæði en annað liggur að votlendinu Teshekpuk Lake.

Hvíta húsið neitaði að tjá sig um fregnir af málinu fyrir helgi að öðru leyti en að segja að engin ákvörðun hefði verið tekin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.