Sport

Borgarstjóri Parísar tók snarpa U-beygju vegna þátttöku Rússa á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anne Hidalgo hefur verið borgarstjóri Parísar frá árinu 2014.
Anne Hidalgo hefur verið borgarstjóri Parísar frá árinu 2014. Getty/Victor LOCHON

París heldur Sumarólympíuleikana á næsta ári og fyrir tveimur vikum þá tók borgarstjóri Parísar vel í það að rússneskir og hvít-rússneskir keppendur fengju að keppa á leikunum. Nú hefur hæstráðandi í stórborg Frakklands breytt um skoðun.

Anne Hidalgo, borgarstjóri París, bauð rússneska og hvít-rússneska íþróttamenn velkomna á leikana fyrir tveimur vikum en Alþjóðaólympíunefndin vildi þá að íþróttafólkið þaðan fengi að keppa undir hlutlausum fána.

Hidalgo talaði þá um að það mætti ekki ræna íþróttafólkinu tækifærinu á því að keppa á Ólympíuleikunum sem eru náttúrulega bara á fjögurra ára fresti.

Mjög margar þjóðir, þar á meðal við Íslendingar, hafa sett sig á móti því að Rússar og Hvít-Rússar fái þátttökurétt og er ástæðan auðvitað hin skelfilega innrás Rússa í Úkraínu.

Hidalgo hefur nú tekið U-beygju og skipt um skoðun í málinu og vill ekki lengur að Rússar og Hvít-Rússar fái að vera með. Hún segir að þeir eigi ekki að fá að keppa á meðan það er stríð í Úkraínu.

Pressan hefur líka aukist frá þjóðum heimsins um að aflétta ekki banninu. Kamil Bortniczuk, íþróttamálaráðherra Póllands, lét hafa það eftir sér í síðustu viku að allt að fjörutíu þjóðir myndu sniðganga leikanna ef rússneskir og hvít-rússneskir keppendur fengju að keppa.

Þetta er á hólminn er komið er það alltaf ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar sem ræður því hvaða þjóðir fá að vera með á leikunum. Með meiri pressu úr alþjóðlega samfélaginu og fleiri hótanir þjóða um að vera ekki með þá verður væntanlega bara ein rökrétt ákvörðun í boði fyrir hæstráðendur þar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.