Sport

Klitschko reiður vegna Rússa á ÓL: Með gullmedalíu í að nauðga konum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wladimir Klitschko var ekkert að spara stóru orðin þegar hann talaði gegn inntöku Rússa á Ólympíuleikana í París á næsta ári.
Wladimir Klitschko var ekkert að spara stóru orðin þegar hann talaði gegn inntöku Rússa á Ólympíuleikana í París á næsta ári. Getty/ Eóin Noonan

Einn frægasti íþróttamaður í sögu Úkraínu sparaði ekki stóru orðin þegar hann gagnrýndi fréttirnar af því að Alþjóðaólympíunefndin, IOC, vilji finna leið fyrir Rússa og Hvít-Rússa til að taka þátt í Ólympíuleikunum í París á næsta ári.

Úkraínska hnefaleikagoðsögnin Wladimir Klitschko setti inn myndband á samfélagsmiðla þar sem hann lýsir yfir reiði sinni og hneykslun vegna þessara frétta.

„Rússar eru Ólympíumeistarar í glæpum gegn almennum borgurum,“ sagði Wladimir Klitschko meðal annars í myndbandinu sem hann setti inn á Facebook en hann gekk líka enn lengra.

Alþjóðaólympíunefndin vill að rússneskir og hvít-rússneskir íþróttamenn fái að keppa á leikunum en undir hlutlausum fána.

Margir hafa lýst yfir óánægju sinni vegna þessa en fáir hafa þó gengið eins langt í gagnrýni sinni og Klitschko. Klitschko er fyrrverandi heimsmeistari í þungavigt hnefaleikanna.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, bauð Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar,  að koma í heimsókn í bæinn Bachmut, þar sem miklir bardagar hafa staðið yfir í vetur.

Klitschko beindi orðum sínum beint til Thomas Bach og það voru þung orð sem hann lét út úr sér.

„Þú leggur til að leyfa Rússum og Hvít-Rússum að keppa á Ólympíuleikunum í París. Ég get sagt þér að Rússar eru Ólympíumeistarar í glæpum gegn almennum borgurum. Þeir eru með gullmedalíu í að ræna börnum og nauðga konum. Þú getur ekki sett Ólympíuhringina á þessa glæpi þeirra því um leið verður þú vitorðsmaður í þessu svívirðilega stríði,“ sagði Klitschko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×