Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti þessi áform á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Þau voru síðan kynnt starfsmönnum stofnananna í morgun. Vinna við verkefnið hófst í fyrrasumar en meðal þess sem gert hefur verið var að kanna sjónarmið starfsmanna. Stærstur hluti þeirra taldi tækifæri felast í sameinungi stofnananna.
Þrjár nýjar stofnanir verða til. Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun verða að Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verða að Náttúruvísindastofnun og Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar utan náttúruverndarsviðs verða að Loftslagsstofnun.
„Með nýju stofnanaskipulagi er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á samstarfi. Einnig eru mikil sóknarfæri í fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð staðsetningu og uppbyggingu eftirsóknarverðra vinnustaða,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Markmiðið með sameiningunni er meðal annars að búa til stærri, kröftugri stofnanir sem geta tekist á við áskoranir til framtíðar, efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri, fjölga störfum á landsbyggðinni og auka rekstrarhagkvæmni.
Nú er í undirbúningi að setja af stað vinnu með fulltrúum stofnananna varðandi mannauðsmál, húsnæðismál og upplýsingatækni. Gert er ráð fyrir að vinna með lagafrumvörp um nýju stofnanirnar þrjár verði í forgangi.