Innlent

Láta ekki lengur flokka drykkjar­fernur frá pappírsúr­gangi

Kjartan Kjartansson skrifar
Pappír sem er safnað í bláar flokkunartunnur við heimili er sendur erlendis til endurvinnslu. Undanfarin tvö ár hafa drykkjarfernur verið flokkaðar sérstaklega úr en því verður nú hætt tímabundið á meðan skilvirkari og umhverfisvænni leiðar er leitað.
Pappír sem er safnað í bláar flokkunartunnur við heimili er sendur erlendis til endurvinnslu. Undanfarin tvö ár hafa drykkjarfernur verið flokkaðar sérstaklega úr en því verður nú hætt tímabundið á meðan skilvirkari og umhverfisvænni leiðar er leitað. Vísir/Arnar

SORPA ætlar að hætta að láta flokka drykkjarfernur sérstaklega frá pappír sem er sendur erlendis til endurvinnslu. Ástæðan er sögð sú að flokkunin skili afar litlum árangri, auki losun koltvísýrings og sé kostnaðarsöm.

Pappírsumbúðir hafa verið sendar úr landi til þess að flokka drykkjarfernur sérstaklega frá öðrum pappírsumbúðum og senda þær í sérhæfða endurvinnslu undanfarin tvö ár. Hönnun fernanna þýðir að almennar endurvinnsluaðferðir fyrir pappa duga ekki á þær og fara þarf með þær í sérhæfða endurvinnslu.

Gripið var til þess ráðs að láta flokka fernurnar eftir að í ljós kom að fyrirtækið sem tók við pappaúrgangi frá SORPU gat ekki ábyrgst að þær væru endurunnar. Fernurnar voru því brenndar í staðinn.

Í tilkynningu frá SORPU um að ákveðið hafi verið að hætta að flokka pappírsúrgang sem flokkaður er við heimili og er sendur til endurvinnslu kemur fram að athuganir síðustu tvö ár hafi leitt í ljós að fyrirkomulagið skili litlum árangri, sé verra fyrir loftslagið og sé dýrt.

Þannig skili þessi sérhæfða endurvinnsla aðeins um 0,5 prósent auknum heildarárangri í endurvinnslu pappírs, úr 90,3 prósentum í 90,8 prósent. Hagfræðistofnun hafi jafnframt bent á í skýrslu í síðasta mánuði að núverandi fyrirkomulagi fylgi meiri koltvísýringslosun en fyrra ferli. 

Sérflokkunin kosti þar að auki um sjötíu milljónir króna á ári. Í ljósi þess að Úrvinnslusjóður hafi hafnað kröfu SORPU um að greiða þann kostnað legðist hann ofan á sorphirðugjöld sem heimilin á höfuðborgarsvæðinu greiða.

Standa sig vel í endurvinnslu

SORPA segist nú leita að skilvirkari, umhverfisvænni og hagkvæmari leið til að safna og meðhöndla drykkjarfernur, meðal annars í samráði við framleiðendur drykkjarvara og smásölufyrirtækja.

„Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár staðið mjög sig vel í flokkun á öllum flokkum, sem er forsenda endurvinnslu. SORPA biður íbúa á höfuðborgarsvæðinu því eftir sem áður að setja drykkjarfernur í tunnuna fyrir pappír við heimili meðan leitað er leiða til að koma þeim í sérhæfða endurvinnslu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×