Fótbolti

Brúða klædd í búning Vinicius Jr. hengd frá brú í Madríd

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vinicius Jr. er í byrjunarliði Real Madrid gegn Atletico Madrid.
Vinicius Jr. er í byrjunarliði Real Madrid gegn Atletico Madrid. Vísir/Getty

Brúða íklædd Real Madrid treyju með nafni hins brasilíska Vinicius Jr. var hengd frá brú í Madríd í gær. Nágrannaliðin Real Madrid og Atletico Madrid eigast við í kvöld í spænska konungsbikarnum.

Nágrannaliðin frá Madríd, Atletico og Real eigast við í kvöld í spænska konungsbikarnum. Í dag hafa myndir verið í dreifingu á samfélagsmiðlum, sem sýna brúðu klædda í Real Madrid treyju með nafni brasilísku stórstjörnunnar Vinicius Jr., hanga frá brú í spænsku höfuðborginni.

Á Spáni er litið á málið sem alvarlega hótun gegn leikmanninum og hefur lögreglan hafið rannsókn. Bæði félögin sem og forsvarsmenn spænska knattspyrnusambandsins hafa fordæmt athæfið.

„Athæfi sem þetta er viðbjóðslegt, óásættanlegt og skömm fyrir samfélagið. Við fordæmum allar árásir gagnvart öðru fólki. Það ríkir mikill rígur á milli félaganna en virðingin verður einnig að vera mikil burt séð frá skoðunum eða húðlit,“ segir í yfirlýsingu frá Atletico Madrid.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem brasilíumaðurinn verður fyrir aðkasti af hálfu stuðningsmanna Atletico Madrid. Fyrir leik liðanna í haust sungu stuðningsmennirnir rasíska söngva um leikmanninn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.