Sport

Borguðu þjálfaranum óvart 145 milljónum of mikið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brian Kelly gerði flotta hluti á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari LSU Tigers liðsins. Hér stendur hann fyrir framan leikmenn sína fyrir leik á móti Georgiu.
Brian Kelly gerði flotta hluti á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari LSU Tigers liðsins. Hér stendur hann fyrir framan leikmenn sína fyrir leik á móti Georgiu. Getty/Kevin C. Cox

Þjálfarar í háskólaboltanum í Bandaríkjunum fá meira borgað en margur grunar en stundum fá þeir bókstaflega of mikið borgað.

Brian Kelly er þjálfari liðs Louisiana State háskólans í ameríska fótboltanum og fær mjög vel borgað fyrir það starf.

Það kom hins vegar í ljós þegar endurskoðandi fór yfir reikninga skólans að skólinn hafi borgað þjálfaranum eina milljón Bandaríkjadala of mikið fyrir fyrsta árið hans í vinnu.

Ein milljón dollara eru um 145 milljónir íslenskra króna.

Kelly gerði tíu ára samning við Louisiana State University og á að fá fyrir það hundrað milljónir dollara eða tæpa 14,5 milljarða króna.

Ástæðan fyrir mistökunum voru að Kelly fékk tvöfaldar launagreiðslur á mánuði frá maí þar til að þetta uppgötvaðist loksins í nóvember.

Það fylgir líka sögunni að Kelly mun borga peninginn til baka með afborgunum fram eftir árinu 2023.

Kelly var áður þjálfari hjá Notre Dame skólanum í tólf tímabil en hann var ráðinn eftir slakt tímabil LSU skólans árið 2021.

Liðið vann þá bara sex af þrettán leikjum sínum en á fyrsta tímabilinu undir stjórn Kelly þá vann LSU liðið tíu af fjórtán leikjum og tryggði sér Sítrónuskálina með 63-7 sigri á Purdue.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×