Sport

Sjónvarpið fékk heldur betur að kenna á því eftir tap Kúrekanna frá Dallas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ezekiel Elliott og félagar Dallas Cowboys eru enn á ný komnir snemma í sumarfrí eftir tap á móti San Francisco 49ers í úrslitakeppni NFL um síðustu helgi.
Ezekiel Elliott og félagar Dallas Cowboys eru enn á ný komnir snemma í sumarfrí eftir tap á móti San Francisco 49ers í úrslitakeppni NFL um síðustu helgi. Getty/Michael Owens

Það er oft erfitt að vera stuðningsmaður liða þegar lítið gengur en það er sérstaklega erfitt að vera stuðningsmaður NFL-liðsins Dallas Cowboys.

Dallas Cowboys er eitt vinsælasta liðið í Bandaríkjunum en það er orðið langt síðan að félagið hefur farið alla leið í Super Bowl.

Kúrekarnir eru enn á ný snemma úr leik í úrslitakeppninni eftir tap á móti San Francisco 49ers um helgina.

Dallas hefur ekki komist í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar síðan þeir fóru alla leið og urðu meistarar árið 1995. Cowboys unnu þá þriðja titilinn á fjórum árum en síðan þá hefur lítið sem ekkert gengið.

Einn stuðningsmaður Dallas hefur vakið athygli fyrir að missa sig algjörlega eftir tapið um helgina.

Við höfum séð menn berja og slá í sjónvarpstækin eftir svekkjandi töp sinna manna en þessi ágæti maður tók sjónvarpið úr sambandi, bar þar út á plan og bakkaði yfir það.

„Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg að þessu rugli,“ heyrðist hann bölva en fyrir annað heimilisfólk sem vildi horfa á eitthvað annað en amerískan fótbolta þá var þetta örugglega jafnóvinsæl ákvörðun og fyrir hann að sjá Kúrekana klúðra málunum enn eitt árið.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×