Innlent

Eins manns rusl er annars manns safn­munur

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá dæmi um umgengni á lóðinni.
Hér má sjá dæmi um umgengni á lóðinni. Vísir/Tryggvi

Skipulagsráð Akureyrar hefur ákveðið að hefja álagningu dagsekta vegna umgengni á lóðinni að Sjafnarnesi 2. Álagning dagsekta mun hefjast eftir þrjá mánuði verði ekki bætt úr umgengni á svæðinu. Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar segir bæinn frekar vilja hvetja til lagfæringa en að vera með kvaðir. Lóðarhafar segjast föst milli steins og sleggju. 

„Þetta er lóð þar sem starfsemin hefur þróast smám saman til verri vegar. Þetta er búið að vera lengi og á lóðinni er mikið af járnadóti sem hefur teygt sig svolítið út fyrir lóðina. Lóðin er svolítið stök og þarna hefur að okkar mati umgengnin ekki verið í lagi,“ segir Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsstjóri. 

Hann nefnir að steypustöð og jarðvinnuverktakar séu á svæðinu.

Hér má sjá hvernig staðan er á svæðinu.Vísir/Tryggvi

„Þetta er ekki neitt safn í neinum bókum“

Við leit á netinu fann fréttamaður upplýsingar um Vinnuvélasafn Konráðs Vilhjálmssonar sem sagt er vera í Sjafnarnesi 2. Aðspurður hvort það sé staðsett á lóðinni segir Pétur svo ekki vera að mati bæjarins.

„Þetta er athafnalóð sem við úthlutum en þessir aðilar eru að koma sér upp vinnuvélasafni [...] En þessi lóð er ekki fyrir neitt vinnuvélasafn og þetta er ekki neitt safn í neinum bókum,“ segir Pétur. Þar sé að finna dekk og muni þeim tengdum auk alls kyns hluta sem hægt sé að ímynda sér.

Hér má sjá lóðina að Sjafnarnesi 2 og lóðarmörkin.Kortavefur Akureyrarbæjar

Skoða má frekari loftmyndir af svæðinu á milli ára á kortavef Akureyrarbæjar sem má finna hér.

Hann segir að verið sé að búa til stórt svæði undir vinnuvélarnar á Moldhaugnahálsi en einhver þúsund tonn af járni séu þegar komin þangað. Eins og loftmyndin sýni glögglega sé ekki um að ræða neins konar safn.

Hér má sjá hvernig staðan er á svæðinu.Vísir/Tryggvi

Hann segir bókunina hafa verið senda en landhafar hafi að sjálfsögðu andmælarétt.

„Við erum eins og öll sveitarfélög að ýta í ýmsa menn að bæta umgengni. Þetta eru þeir sem eru kannski með mesta dótið,“ segir Pétur. Óskandi væri að þeir gerðu þetta sjálfir án þess að bærinn þyrfti að koma að þessu. Umgengnin sé ekki viðunandi. Betra sé að hvetja en að vera með kvaðir.

Snúist mest um að hlutir utan lóðamarka séu fjarlægðir

Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar segir umganginn á lóðinni hafa verið eins og raun ber vitni í mörg ár. Umgengni á lóðinni hafi áður verið tekin fyrir, til dæmis af heilbrigðiseftirliti Norðurlands. 

Áður hafi verið reynt að tala við lóðarhafa en málið snúist að mestu um að hlutir sem komnir séu utan lóðarmarka séu fjarlægðir. 

Hér má sjá hvernig staðan er á svæðinu.Vísir/Tryggvi

„Það hefur ekki gengið betur en svo að við töldum rétt að fara í sérstakt átak og fara þá þessa leið. Gefa þeim einhverja mánuði til þess að laga til og bregðast við en af öðrum kosti verði gripið til dagsekta. En auðvitað hafa þau andmælarétt og við eigum þá eftir að fá þau rök aftur til okkar  þannig þetta svo sem tekur svolítinn tíma, ferlið sjálft,“ segir Halla. 

Hún segir tiltektarátakið lið í því að fá fyrirtækin til þess að hjálpa þeim við að taka til í bænum. 

Föst milli steins og sleggju

Staðan lítur þó aðeins öðruvísi út fyrir lóðarhafa en einn af þeim er einn eigenda Steypustöðvar Akureyrar, Þór Konráðsson. 

Þór segir málið hafa verið í pattstöðu í ákveðinn tíma en skipulagsferli á landi í Hörgársveit sem ætlað sé til þess að geyma vinnuvélarnar og hýsa vinnuvélasafn sé á síðustu metrunum. Þeir sem sjái um landið hafi fengið þær upplýsingar frá  Hörgársveit og Akureyrarbæ að ekki skildi hreyfa við mununum fyrr en geymslusvæði væri fundið og viðeigandi leyfi fengin. Skipulagsvinnan hafi dregist fram úr hófi hjá Hörgársveit. 

Munirnir verði fluttir þegar öll leyfi fáist en um er að ræða uppsetningu Vinnuvélasafns Konráðs Vilhjálmssonar. Þór segir að safnið muni vera staðsett á Skútum í Hörgársveit en skipuleggjendur hafi sankað að sér um 300 til 400 munum. Þá mun ýmis önnur starfsemi rísa á sama svæði. 

Safnið hefur verið í bígerð lengi en það var stofnað óformlega árið 1984. 

Aðspurður hvort honum finnist bókun skipulagsnefndar þá ekki ákveðin þversögn segist Þór halda að það hljóti annað fólk að vera í samskiptum við skipuleggjendur safnsins en þau sem ákveði þetta. 

Hann segist þó vera rólegur yfir úrskurði nefndarinnar. Skipulag svæðisins í Hörgársveit sé á lokametrunum en á meðan séu hendur þeirra bundnar. 

„Á meðan getum við ekki annað en beðið og leyft kerfinu að vinna sína vinnu,“ segir Þór. Hann bætir því við að hann hafi bara átt góð samskipti við Akureyrarbæ og Hörgársveit í allri skipulagsvinnu. 

„Við trúum því að þetta sé vanþakklátt starf en fólk eigi eftir að meta þetta af verðleikum þegar fram líða stundir,“ segir Þór að lokum.

Bókun Akureyrarbæjar má sjá hér að neðan eða með því að smella hér.

Bókun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar

Rætt um stöðu mála á lóðinni Sjafnarnesi 2 en fyrir liggur að umgengni hefur í langan tíma verið óviðunandi auk þess sem loftmynd sýnir að mikið af tækjum og öðrum lausamunum er utan lóðarmarka.

Að mati skipulagsráðs er umgengni á lóðinni Sjafnarnesi 2 og nánasta umhverfi óviðunandi. Er skipulagsfulltrúa falið að fara fram á við lóðarhafa að gerðar verði úrbætur á ástandi svæðisins innan þriggja mánaða, að öðrum kosti verði lagðar á dagsektir. Felur það meðal annars í sér að fjarlægja þarf öll tæki og aðra lausamuni í eigu lóðarhafa sem eru utan lóðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×