Fótbolti

Íranir vilja sparka Bandaríkjamönnum af HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íranski fáninn í öllu sínu veldi.
Íranski fáninn í öllu sínu veldi. getty/Catherine Ivill

Íranska knattspyrnusambandið hefur sent inn formlega kvörtun til FIFA vegna Bandaríkjanna.

Íranir eru afar ósáttir við að Bandaríkjamenn hafi tekið merki Allahs úr fána landsins í færslum um leik liðanna á morgun á samfélagsmiðlum. Íranir saka Bandaríkjamenn um að fjarlægja nafn guðs úr fána landsins.

Bandaríkjamenn segjast hafa sleppt því að nota opinberan fána Írans tl að sýna mannréttindabaráttu kvenna þar í landi stuðning. Mótmælaalda hefur geysað í Íran eftir að hin 22 ára Masha Amini lést í varðhaldi. Hún hafði verið handtekin af siðferðislögreglu Írans fyrir brot gegn lögum um slæðunotkun kvenna. Fjölskylda hennar og mótmælendur telja að lögreglan hafi barið hana til bana en yfirvöld segja að hún hafi fengið fyrir hjartað.

Íranska knattspyrnusambandið hefur kvartað formlega til FIFA vegna þess að Bandaríkin notuðu ekki réttan fána landsins. Samkvæmt talsmanni bandaríska knattspyrnusambandið hefur nú verið skipt um fána og það noti hér eftir réttan fána Írans. Sambandið segist eftir sem áður styðja við konur í Íran.

Íranska knattspyrnusambandið hefur kvartað til FIFA eins og áður sagði en ríkissjónvarpsstöðin Tasnim News Agency í Íran hefur gengið enn lengra og vill að bandaríska liðinu verði hent út af HM.

Íran og Bandaríkin eigast við í lokaumferð riðlakeppninnar á HM á morgun. Bæði lið eiga möguleika á að komast upp úr B-riðli. Í hinum leik morgundagsins í riðlinum eigast Englendingar og Walesverjar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×