Sport

Var að vinna New York maraþonið þegar hann hné niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
New York maraþonið endaði ekki vel fyrir Daniel Do Nascimento.
New York maraþonið endaði ekki vel fyrir Daniel Do Nascimento. Samsett/AP/Julia Nikhinson

Brasilíumaðurinn Daniel Do Nascimento virtist vera í góðum málum í New York maraþoninu um helgina þegar örlögin tóku völdin.

Do Nascimento var í forystu í hlaupinu þegar 34 kílómetrar voru búnir. Hann átti þá bara átta kílómetra eftir.

Do Nascimento var með um tveggja mínútna forskot og var að keyra upp hraðann í hlaupinu.

Allt í einu hætti Brasilíumaðurinn hins vegar að hlaupa, gekk nokkur skref og féll svo í jörðina.

Læknalið keppninnar var fljótt á staðinn og hugaði að honum.

Hitinn var yfir tuttugu gráður sem hafði einhver áhrif en Brassinn ætti samt að vera vanur miklu heitari aðstæðum.

Það lítur út fyrir að hann hafi farið aðeins of geyst og ofreynt sig. Atvikið var óhugnarlegt og setti sinn svip á hlaupið en það virðist þó vera í lagi með hlauparann. Hann þurfti ekki að fara á sjúkrahús.

Skömmu eftir að Do Nascimento féll í jörðina þá kom Evans Chebet og fór fram úr honum. Keníamaðurinn vann síðan hlaupið.

Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem Do Nascimento ofgerir sér því svipað var upp á teningnum hjá honum á Ólympíuleikunum í Tókýó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×