Danir gengu að kjörborðinu í dag og hefur spennan þar í landi verið mikil. Kannanir bentu til þess að forsætisráðherrann fyrrverandi, Lars Løkke, yrði í kjörstöðu við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Nú er ljóst að kannanir hafi gengið eftir. Búið er að telja 99,6 prósent atkvæða. Danska ríkisútvarpið.
Mikil fagnaðarlæti Moderaterne
Níutíu þingsæti þarf til að mynda meirihluta á danska þinginu. Þegar búið var að telja rúmlega níutíu prósent atkvæða, missti hægriblokkin mann, og fær nú 73 þingsæti þegar búið er að telja öll atkvæði. Vinstriblokkin nær 86 mönnum inn en Moderaterne, sem er utan bandalaga, fær 16 þingsæti. Samkvæmt þessu næði hægriblokkin því ekki að mynda meirihluta þrátt fyrir mögulegt fulltingi Moderaterne.
„Ég get ekki svarað því strax hvern ég vilji sem forsætisráðherra en [Mette] verður að missa lyklavöldin í einhvern tíma. Hvort sem það verði hún sem fái stólinn að nýju, eða einhver annar taki við, skýrist við myndun nýrrar ríkisstjórnar; breiðfylkingar sem mun færa Danmörku í rétta átt,“ sagði Løkke í ræðu fyrr í kvöld við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.
Brjóta upp „lásana“
Flokkurinn, Moderaterne, hefur verið á allra vörum í kosningabaráttunni. Hann var stofnaður í júlí í fyrra og hefur Løkke, sem gekk úr hægriflokkinum Venstre árið 2019, lýst honum sem miðjuflokki. Markmið með stofnun Moderaterne var að brjóta upp „lásana“ milli hægri- og vinstrivængs og koma á ríkisstjórn flokka yfir miðjuna. Hann hefur áður sagst vilja komast í ríkisstjórn og nú er ljóst að Jafnaðarmannaflokkurinn yrði að vera hluti af slíkri stjórn.
Stóru flokkarnir í dönskum stjórnmálum – Jafnaðarmannaflokkurinn og Venstre – hafa báðir varað kjósendur við því að kjósa Moderaterne, og vilja meina að atkvæði greitt þeim sé atkvæði greitt hinni blokkinni. Á sama tíma hefur Fredriksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, ekki útilokað samstarf með Moderaterne að loknum kosningum.
Gætu náð samkomulagi
Síðustu dagar kosningabaráttunnar snerust að miklu leyti um heilbrigðismálin. Samkvæmt skoðanakönnunum virðast kjósendur einnig hafa mestan áhuga á þeim málaflokki. Rasmussen hefur í kappræðum sagt að nauðsynlegt sé að gera gagngerar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Frederiksen rétti út sáttarhönd til forverans í stóli forsætisráðherra skömmu fyrir kosningar: „Ég held í alvörunni, Lars, að þú og ég gætum náð samkomulagi um umbætur í heilbrigðisgeiranum.“
Hvort að samstaða Fredriksen og Løkke í heilbrigðismálum, og öðrum málaflokkum, náist verður væntanlega að koma í ljós á næstu dögum. Eins og áður segir er hins vegar ljóst að Rasmussen verði í góðri stöðu í komandi stjórnarviðræðum.
Niðurstöður kosninganna (innan sviga er fylgið í kosningum 2019)
- Jafnaðarmannaflokkurinn 27,6% (25,9%)
- Venstre 13,3% (23,4%)
- Moderaterne 9,3% (nýtt framboð)
- Danmerkurdemókratar 8,1% (nýtt framboð)
- Sósíalíski þjóðarflokkurinn 8,3% (7,7%)
- Einingarlistinn 5,1% (6,9%)
- Íhaldsflokkurinn 5,5% (6,6%)
- Frjálslynda bandalagið 7,9% (2,3%)
- Nýir borgaralegir 3,7% (2,4%)
- Radikale Venstre 3,8% (8,6%)
- Danski þjóðarflokkurinn 2,6% (8,7%)
- Valkosturinn 3,3% (3,0%)