Erlent

Köstuðu kartöflumús á málverk Monet

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendurnir límdu hendur sínar við vegginn eftir að þeir köstuðu stöppunni á verkið.
Mótmælendurnir límdu hendur sínar við vegginn eftir að þeir köstuðu stöppunni á verkið. AP/Letzte Generation

Franski listmálarinn Claude Monet er orðinn nýjasta viðfangsefni loftslagsaðgerðasinna en þýskir aktívistar köstuðu kartöflumús á verk eftir málarann á Potsdam safninu í Berlín í gær. Þetta er annað klassíska málverkið sem verður fyrir barðinu á matvælamótmælum á stuttum tíma.

Tveir meðlimir breska loftslagsaðgerðahópsins Just Stop Oil helltu fyrir tíu dögum síðan tómatsúpu eftir málverkið Sólblóm eftir Vincent Van Gogh í National Gallery safninu í Lundúnum. Í gær gengu tveir meðlimir þýska aðgerðahópsins Síðasta kynslóðin (þ. Letzte Generation) inn í Barberini safnið og köstuðu kartöflumús yfir Heysáturnar, Les Meules, eftir Monet. Strax á eftir límdu aðgerðasinnarnir hendur sínar fastar við vegginn við hlið verksins. 

Að sögn aðgerðasinnanna áttu mótmælin að vekja almenning til umhugsunar um loftslagsvána að því er fram kemur í frétt Guardian um málið.

„Við lifum á tímum loftslagshörmunga og þið eruð öll hrædd við smá tómatsúpu eða kartöflustöppu á málverki. Vitið þið hvað ég er hrædd við? Ég er hrædd vegna þess að vísindin segja okkur að árið 2050 munum við ekki hafa nægan mat til að gefa fjölskyldum okkar að borða,“ sagði annar mótmælendanna í myndbandi sem var birt á Twitter-síðu Letzte Generation. 

„Þarf virkilega kartöflustöppu á málverki til að þið farið að hlusta? Þetta málverk verður einskis virði ef við þurfum að slást yfir mat. Hvenær ætlið þið virkilega að hlusta? Hvenær munuð þið hlusta og hætta að lifa lífinu eins og ekkert sé að?“

Fram kemur í tilkynningu frá Potsdam safninu að málverkið var verndað af glerhjúp og því hafi málverkið ekki liðið neinar raunverulegar skemmdir. Þá hafi lögregla verið fljót að mæta á staðinn og það hafi reynst nokkuð auðvelt að losa hendur mótmælendanna frá veggnum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×