Sport

„Mínir menn voru eins og saumaklúbbs kerlingar sem lögðu sig ekki fram með öllu sínu hjarta“

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, var hundfúll eftir tap gegn Aftureldingu 26-27. Rúnar var afar ósáttur með frammistöðu Hauka og fannst honum sínir menn ekki hafa áhuga á að berjast. 

„Mér fannst Afturelding klókari en við þeir tóku langar sóknir og nýttu færin vel á meðan okkar sóknarleikur var hægur og við tókum sjaldan réttar ákvarðanir,“ sagði Rúnar og bætti við að Guðmundur Bragi var með Hauka á herðunum. 

Rúnar var ekki ánægður með baráttuna í sínu liði og var hundfúll með að horfa upp á sitt lið leggja sig ekki fram. 

„Við byrjuðum að rúlla á liðinu þar sem við vildum ekki að menn myndu springa í fyrri hálfleik en svo kom brottvísun og okkur tókst ekki að halda dampi.“

„En ég verð að segja að ég get ekki horft á mitt lið lengur horfa á lausa bolta liggja á vellinum. Menn eru ekki að fórna sér í eitt eða neitt þetta eru eins og saumaklúbbs kerlingar sem leggja sig ekki fram með öllu sínu hjarta og þetta fer svakalega í taugarnar á mér. Þetta gerist í öllum umferðum þar sem það liggur dauður bolti fyrir framan okkur og það er andstæðingurinn sem skutlar sér á meðan við bíðum og mér finnst ótrúlega þreytandi að horfa upp á þetta.“

Rúnar hrósaði Aftureldingu og fannst honum Mosfellingar vera klókari en hans lið.

„Mér fannst Afturelding klókara lið á vellinum sem spilaði fastari vörn og lagði meira á sig. Þetta er ekki flóknara en það. Ég væri til í að spila eftir þrjá daga eftir svona leik en það þarf að fara yfir marga hluti og við þurfum að skerpa á grunnatriðunum,“ sagði Rúnar Sigtryggsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×