Bíó og sjónvarp

Netflix leitar í kvikmyndahúsin

Samúel Karl Ólason skrifar
Netflix hefur hingað til forðast það að frumsýna kvikmyndir í kvikmyndahúsum, löngu á undan frumsýningu á streymisveitunni.
Netflix hefur hingað til forðast það að frumsýna kvikmyndir í kvikmyndahúsum, löngu á undan frumsýningu á streymisveitunni. Getty/Jakub Porzycki

Forsvarsmenn streymisveitunnar Netflix hafa ákveðið að birta myndina Gloass Onion: A Knives Out Mystery í kvikmyndahúsum. Það verður gert mánuði áður en myndin verður aðgengileg á streymisveitunni sjálfri en myndin er eins og nafnið gefur til kynna framhaldsmynd Knives Out.

Kvikmyndin verður sýnd í um sex hundruð kvikmyndahúsum AMC í Bandaríkjunum í lok nóvember. Hingað til hafa yfirmenn Netflix að mestu neitað að birta kvikmyndir í kvikmyndahúsum áður en þær eru aðgengilegar á streymisveitunni.

Samkvæmt Wall Street Journal hefur það nokkrum sinnum verið gert og þá nánast eingöngu svo umræddar kvikmyndir séu gjaldgengar á Óskarsverðlaunahátíðinni. Til þess þurfa kvikmyndir að vera sýndar minnst þrisvar sinnum á dag, sjö daga í röð í sex fjölmennum byggðum.

Army of the Dead, eftir Zack Snyder, sem frumsýnd var í fyrra var einnig frumsýnd í kvikmyndahúsum vestanhafs en það var bara viku áður en hún varð aðgengileg á streymisveitunni.

AMC hefur hingað til neitað að sýna kvikmyndir frá Netflix, vegna þess að þær hafa verið birtar á sama tíma í streymisveitunni. WSJ hefur eftir forstjóra fyrirtækisins að nú hafi forsvarsmenn Netflix samþykkt að „virða“ birtingu í kvikmyndahúsum og fundið leið fyrir streymisveitur og kvikmyndahús til að vinna saman.

Frá því streymisveitur fóru að njóta meiri hylli á heimsvísu hefur endalokum kvikmyndahúsa ítrekað verið spáð og átti það sérstaklega við á tímum Covid. Í kjölfar faraldursins hafa kvikmyndahús þó sýnt ákveðna upprisu og þá kannski sérstaklega með Top Gun Maverick, sem sló í gegn hjá áhorfendum og hefur mokað inn tekjum í kvikmyndahúsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×