Sport

Bjarni: Vorum með plan varnarlega sem gekk upp

Andri Már Eggertsson skrifar
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinn
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinn Vísir/Vilhelm

Haukar fóru illa með Val í 2. umferð Subway deildar-kvenna. Leikurinn endaði með sannfærandi sigri Hauka 77-62 og var Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, afar ánægður með sigurinn.

„Mér fannst við standast prófið í kvöld. Við leiddum leikinn frá fyrstu mínútu og það var kraftur í mörgu sem við vorum að gera og það sem við lögðum upp með varnarlega gekk vel,“ sagði Bjarni í samtali við Vísi eftir leik.

Bjarni var ánægður með varnarleikinn strax á fyrstu mínútu sem varð til þess að fyrsta karfa Vals kom eftir sex mínútna leik.

„Við vorum með ákveðið plan varnarlega sem gekk upp. Ég var mjög sáttur með sigurinn og áfram gakk.“

„Við náðum að ýta Val út úr því sem þær vildu gera. Við settum pressu á boltann og færðum vörnina vel sem varð til þess að við stálum fullt af boltum. Við vorum á tánum í kvöld og það sem við lögðum upp með gerðum við vel og við verðum að halda áfram og bæta ofan á það sem við gerðum vel í kvöld.“

Bjarni nældi sér í tæknivillu þar sem honum fannst Kiana Johnson átt skilið meira en venjulega villu þegar hún braut á sér.

„Mér fannst Kiana [Johnson] hefði átt að fá meira en bara venjulega villu en dómararnir sáu atvikið öðruvísi og ég lét heyra í mér og tók á mig tæknivillu sem var ekkert stórmál,“ sagði Bjarni Magnússon að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×