Erlent

Lekar í Nord Stream 1 og 2 mögu­lega skipu­lagðar á­rásir

Atli Ísleifsson skrifar
Gasleiðslunar hafa flutt gas frá Rússlandi og til Þýskalands um Eystrasalt.
Gasleiðslunar hafa flutt gas frá Rússlandi og til Þýskalands um Eystrasalt. EPA

Lekar sem uppgötvuðust í báðum Nord Stream-gasleiðslunum Eystrasalti í gær - Nord Stream 1 og 2 - kunna skýrast af því að skipulögð árás hafi verið gerð á leiðslunar.

Þýska blaðið Tagesspiegel segir frá þessu og vísar í ónafngreindan heimildarmann innan þýska stjórnkerfisins. „Allt mælir gegn því að um sé að ræða tilviljun.“

Sænskir fjölmiðlar segja að göt hafi uppgötvast í báðum leiðslum í gær, sem varð til þess að gas sem er að finna í leiðslunum byrjaði að leka út í Eystrasalt. Viðvaranir voru sendar út til skipa undan ströndum Karlskrona í Svíþjóð og norður af Borgundarhólmi.

Lekarnir urðu með einungis nokkurra klukkustunda millibili, fyrst í Nord Stream 2 og síðar Nord Stream 1, en gasleiðslunar hafa flutt gas frá Rússlandi og til Þýskalands um Eystrasalt. 

Orsök leikanna var fyrst sagt vera „skyndileg breyting á þrýstingi“. Nú segir hins vegar Tagesspiegel að mögulegt sé að kafbátur eða kafarar hafi valdið skemmdum á leiðslunum, en fulltrúar þýskra yfirvalda rannsaka nú skemmdirnar.

Í frétt SVT segir að talsmaður Nord Stream 1 vilji hvorki tjá sig um fréttir af meintum skemmdarverkum, né gefa upp hvenær ráð sé fyrir gert að hægt verði að gera við þær.

Nord Stream 1 var tekin í notkun árið 2011, en í byrjun september lokuðu rússnesk stjórnvöld á gasflutning um leiðsluna og vísaði þar til tæknilegra vandræða. Framkvæmdum við Nord Stream 2 lauk á síðasta ári en hefur þó aldrei verið tekin í notkun, fyrst og fremst vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu. 

Þó að ekki sé verið að flytja gas um leiðslurnar þá er gríðarlegt magn af gas í þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×