Sport

Federer og Nadal taka höndum saman í lokaleik Svisslendingsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roger Federer ætlar sér að leggja spaðann á hilluna eftir Laver Cup.
Roger Federer ætlar sér að leggja spaðann á hilluna eftir Laver Cup. Julian Finney/Getty Images for Laver Cup

Svissneski tenniskappinn Roger Federer ætlar sér að leggja spaðann á hilluna eftir tvíliðaleikinn á Laver Cup sem hefst í dag í London. Með honum í liði verður gamall andstæðingur hans til margra ára, Rafael Nadal.

Þeir félagar munu leika fyrir hönd Evrópuliðsins gegn heimsliðinu sem þeir Jack Sock og Frances Tiafoe skipa.

Federer og Nadal eru tveir af sigursælustu tennisköppum sögunnar, en hinn 41 árs gamli Federer hefur unnið 20 risatitla á ferlinum og hinn 36 ára gamli Nadal hefur unnið 22.

„Ég er ekki viss um að ég ráði við þetta allt, en ég mun reyna,“ sagði Federer um mótið sem framundan er.

„Ég á reyndar erfiðari minningar úr fortíðinni þar sem ég var svakalega stressaður fyrir leiki, en þetta er allt önnur tilfinning.“

„Það er auðvitað mjög sérstakt að fá að spila með Rafa. Ég er glaður að hafa hann með mér í liði, en ekki á móti mér.“

Nadal, andstæðingur Federer til margra ára, tók undir orð nú liðsfélaga síns og sagði að tennisheimurinn væri fátækari án hans.

„Einn af mikilvægustu - ef ekki sá mikilvægasti - tennisspilurum ferils míns er að yfirgefa okkur,“ sagði Nadal.

„Þegar allt kemur til alls þá verður þetta erfið stund. Ég er mjög spenntur og þakklátur fyrir að fá að spila með honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×