Innlent

Mikil­vægt að skoða hvort konur treysti heil­brigðis­kerfinu fyrir krabba­meins­skimunum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Yfirlæknir brjóstamiðstöðvar segir mikilvægt að skoða hvort konur treysti heilbrigðiskerfinu þegar kemur að krabbameinsskimunum í ljósi fyrri mistaka við greiningu leghálskrabbameina. Ný brjóstamiðstöð opnaði í morgun með það að markmiði að gera þjónustu við konur aðgengilegri. Heilbrigðisráðherra segir framtakið framfaraskref í heilsusögu kvenna. 

Ný brjóstamiðstöð Landspítlans var formlega vígð í morgun. Opnun miðstöðvarinnar er liður í að samþætta þjónustu við geiningu, meðferð og eftirlit brjóstmeina og jafnframt til að styrkja og efla starfsemina.

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirmaður brjóstaskurðlækninga, segir markmiðið að byggja upp heildræna þjónustu fyrri konur í landinu.

„Endurskipuleggja ferla og slíkt og gera þjónustuna aðgengilega þannig að greiningartími verði sem stystur og við sjáum meiri samfellu í flæði í gegnum greiningarferil, meðferðarferil og eftirlit.“

Þjónustan hafi verið of dreifð

Svanheiður segir að þjónustan hafi verið allt of flókin og dreifð um heilbrigðiskerfið.

„Já það hefur verið það og nú höfum við tækifæri til þess að fanga alla þjónustuna á einn stað. Það er hugmyndin með brjóstamiðstöð að hér er öll sú þjónusta sem konur þurfa að leita til vegna allra vandamála í brjóstum.“

Heldur þú að konur treysti kerfinu, t.d. eftir mistök við greiningu á leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélaginu?

„Já það er góð spurning. Það er eitt af því sem við þurfum að komast að. Ég held að reynslan muni sýna fram á það hvort þeir treysti kerfinu. Okkur er mjög annt um skimunina og við sem komum að skimunarverkefninu við vinnum saman og erum að endurskoða hvað við getum gert til að bæta þjónustuna og til þess að auka aðgengið þannig að konur hreinlega mæti.“

Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra.bjarni einarsson

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra segir að þjónustan hafi verið of brotakennd en með opnun miðstöðvarinnar sé, líkt og Svanheiður sagði, öll þjónusta komin á einn stað.

„Í því fellst auðvitað efling þjónustu og samfella og samlegð sem við þekkjum frá teymisvinnu sem er alltaf að aukast í allri heilbrigðisþjónustu og hún er ekki síst nauðsynleg á þessu sviði,“ sagði Willum.

Er þetta framfaraskref í heilsusögu kvenna? 

„Já mér finnst það, stórt framfaraskref.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×