Erjurnar á milli Ray J og Kardashian fjölskyldunnar virðast hafa stigmagnast síðan í apríl á þessu ári og náðu hápunkti, í bili, um helgina þegar Ray J birti tæplega fjörutíu og fimm mínútna langt myndband.
Byrjaði í The Kardashians í apríl
Í upphafi Hulu þáttanna The Kardashians sem fóru í loftið í apríl var atriði þar sem sonur Kim sá auglýsingu um kynlífsmyndband móður sinnar í tölvuleik. Í auglýsingunni var fullyrt að annað slíkt myndband væri til og síðar í þáttunum kom fram að umboðsmaður Ray J væri með myndbandið.
Í gegnum fyrstu þætti seríunnar var sýnt frá því þegar Kanye West, fyrrum eiginmaður Kim, flaug til Ray J og sneri aftur með fartölvuna hans. Fjölskyldan fann fyrir miklum létti, og þar með lauk þeim söguþræði í þáttunum.
Á bak við tjöldin voru þó samskipti Kim Kardashian og Ray J að fara af stað samkvæmt því sem hann greindi síðar frá á samfélagsmiðlum.
Kris Jenner í lygamæli fyllti mælinn
The Late Late Show með James Corden setti Kris Jennar í lygamæli og spurði meðal annars hvort að hún hafi hjálpað dóttur sinni að gefa myndbandið út. Kris svaraði neitandi og sagði lygamælirinn að um sannleikann væri að ræða.
Ray J var ekki á sama máli og nýtti Instagram miðilinn sinn til þess að halda úti streymi og segja sína hlið á málinu. Þar fór hann í gegnum skilaboð á milli sín og Kim frá því í apríl í tengslum við þættina og kynlífsmyndbandið sem var gefið út af Vivid Entertainment árið 2007.
Ray J vildi ekki koma illa út
Í skilaboðunum, frá því í apríl, óskaði hann eftir því að vera ekki látinn koma svona illa út úr söguþræðinum sem var í gangi í þættinum þeirra. Hann segir engan hafa verið að hóta því að gefa neitt út og að hann hafi sjálfur hitt Kanye og þeir hafi átt gott og einlægt spjall.
Í myndbandinu segist hann sjálfur eiga börn í dag og að hann vilji ómögulega að þau haldi í framtíðinni að faðir þeirra myndi gera slíkan hlut líkt og að leka myndbandinu. Kim fullyrti að hann myndi ekki koma illa út úr söguþræðinum í nýju þáttunum.
Sýndi undirritaðan samning
Í streyminu sýndi Ray J samning um sölu á kynlífsmyndbandinu til Vivid Entertainment þar sem undirskriftir hans og Kim Kardashian koma fram. Á samningum var talað um þrjár myndbandsupptökur, Cabo Intro, Cabo Sex og Santa Barbara sex.
„Þú veist hvað við gerðum! Mamma þín stjórnaði þessum kynlífsmyndbandssamningi við Joe Francis og Steve Hirsch. Það var hennar hugmynd að gefa út myndband með Vivid. Það eins sem ég gerði var að samþykkja það,“ sagði hann meðal annars í skilaboðum til Kim.
Hann segir þriðju upptökuna hafa átt sér stað eftir að Kris, móðir Kim, óskaði eftir því að þau færu að taka upp meira efni til þess að gefa út. Hann segir þau hafa gert það, þrátt fyrir að vera hætt saman á þeim tímapunkti. Hann segir Cabo myndböndin þó hafa verið valin því hún hafi litið betur út í þeim.
Hér að neðan má heyra Brennsluteið í heild sinni en umræðan um Kim og Ray hefst á mínútu 11:21 :