Innlent

Sam­ræmdum prófum slaufað og „Mats­ferill“ kemur í þeirra stað

Atli Ísleifsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason er mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason er mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Samræmd könnunarpróf í grunnskóla verða ekki lögð fyrir á þessu skólaári og fram til ársins 2024. Í stað prófanna verður unnið með svokallaðan „Matsferil“, nýtt samræmt námsmat, sem mun leysa samræmdu prófin af hólmi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þar segir að með lagabreytingu í sumar hafi skyldu um lagningu prófanna verið frestað á meðan unnið sé áfram að þróun umrædds Matsferils sem byggi á tillögum starfshóps frá árinu 2020 um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdu prófanna.

„Breiður hópur sérfræðinga og hagsmunaaðila vann tillögurnar. Aðalmarkmiðið er að færa skipulag námsmats nær nemendum og kennurum þannig að það þjóni nemendum sem verkfæri, aðgengilegu fyrir kennara og skóla til að nota eftir þörfum.

Samræmd próf voru tengd innritun í framhaldsskóla en svo hefur ekki verið um árabil. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á að samræmt námsmat veiti skólum, nemendum og foreldrum upplýsingar um stöðu nemenda og skapi færi á að styðja við nám þeirra áður en grunnskólanámi lýkur.

Samhliða breytingunni verður ytra mat skóla eflt þar sem alþjóðlegar kannanir og ytra mat hvers skóla eru talin heppilegri tæki til að sinna eftirlitsskyldu mennta- og barnamálaráðuneytisins og gefa nákvæmari heildarmynd af stöðu menntakerfisins.“

Ætlað að fjölga verkfærum skóla

Ennfremur segir að með breytingunum eigi að fjölga verkfærum skólanna. Matsferill eigi að gefa nákvæmari mynd af stöðu og framvindu nemanda sem nýtist kennurum, nemendum, forsjáraðilum og skóla á þann veg að hægt verði að sjá hvað þurfi að bæta.

„Gert er ráð fyrir að útfærsla verkefnisstjórnar á fyrirkomulaginu til framtíðar liggi fyrir vorið 2023 og að samráð um áframhaldandi þróun Matsferils haldi áfram með hagsmunaaðilum,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×