Sport

Hilmar Örn endaði í sjöunda sæti og er staðfestur í úrslit á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Örn Jónsson tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í morgun.
Hilmar Örn Jónsson tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í morgun. EPA-EFE/CJ GUNTHER

Hilmar Örn Jónsson tryggði sér sæti í úrslitum í sleggjukasti á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum eftir sitt næstlengsta kast á ferlinum.

Þetta leit mjög vel út eftir riðil Hilmars og á endanum átti kappinn sjöunda lengsta kastið í undankeppninni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur kemst í úrslit í sleggjukasti á stórmóti.

Hilmar Örn kastaði 76,33 metra í sínu lokakasti og var með þriðja lengsta kastið í fyrri undanriðlinum. Þar köstuðu bara Pólverjinn Wojciech Nowicki (78,78 metrar) og Frakkinn Quentin Bigot (77,22 metrar).

Hilmar Örn hafði gert ógilt í fyrsta kasti og svo kastað 72,87 metra í kasti tvö. Hann þurfti því á risakasti í þriðju og síðustu tilraun sem kom.

Hilmar hefur aðeins einu sinni kastað lengra en það var þegar hann kastaði sleggjunni 77,10 metra og setti Íslandsmet á Origo móti FH 27 ágúst 2020. Þetta var líka langlengsta kast Íslendings á stórmóti en Hilmar kastaði 72,72 metra á heimsmeistaramótinu í júlí.

Hér fyrir neðan má sjá þetta frábæra kast Hilmars.

Þeir sem köstuðu 77,50 metra tryggðu sér strax í úrslit en tólf efstu tryggðu sér sæti í úrslitunum annað kvöld.

Í seinni undanriðlinum máttu því níu manns kasta lengra en Hilmar og það kom fljótlega í ljós að kapparnir voru að kasta lengra í þeim riðli.

Það voru þrír sem köstuðu sig beint í úrslitin og einn að auki sem kastaði lengra en Hilmar.

Lengst allra kastaði Pólverjinn Paweł Fajdek en sleggjan hans fór 79,76 metra.

Hilmar kastaði jafnlangt og Grikkinn Christos Frantzeskakis en tekur sjöunda sætið af því að næstlengsta kast hans var lengra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×