Erlent

Sífellt fleiri reyna að komast til Kanaríeyja og margir hafa dáið

Samúel Karl Ólason skrifar
Áhafnir björgunarskipa á Kanaríeyjum hafa staðið í ströngu í sumar.
Áhafnir björgunarskipa á Kanaríeyjum hafa staðið í ströngu í sumar. EPA/Adriel Perdomo

Minnst 9.589 manns hafa flúið frá ríkjum Afríku til Kanaríeyja á þessu ári. Það er aukning um 27 prósent, samanborið við sama tímabil í fyrra. Leiðin er þó mjög hættulegt og minnst þúsund hafa dáið við að fara hana, samkvæmt hjálparsamtökum sem starfa á svæðinu.

Tugir þúsunda evrópskra ferðamanna sem hafa farið til Kanaríeyja eru að mestu ómeðvitaðir um þjáningu flótta- og farandfólks.

Reuters fréttaveitan ræddi við fólk sem hefur flúið til Kanaríeyja. Þeirra á meðal var Mohamed Fane. Hann er 33 ára gamall smiður sem ferðaðist frá Senegal til Kanaríeyja. Eftir hættulega ferð og margra mánaða bið í Dakhla í Marokkó smöluðu smyglarar honum og á rúmlega tuttugu öðrum um borð í lítinn trébát og sendu þau af stað til Kanaríeyja.

Báturinn varð þó eldsneytislaus langt frá eyjaklasanum og voru þau á reki í þrjá daga í lekum bát. Einn dó en að endingu var þeim bjargað og þau flutt til Gran Canaria.

Annar viðmælandi fréttaveitunnar, sem leiðir stuðningssamtök á Tenerife, segir óðagot ríkja á meginlandi Afríku eftir faraldur kórónuveirunnar og vegna stríðsins í Úkraínu og verðbólgu. Hann óttaðist að mun fleiri muni reyna að komast til Kanaríeyja á næstu misserum.

Í fyrra bárust fréttir af umfangsmiklu streymi farand- og flóttafólks til Ceuta, sem er yfirráðasvæði Spánar í Norður-Afríku. Her Spánar var sendur á vettvang til að hefta flæðið og þúsundir voru send aftur til Marokkó.

Sjá einnig: Hafa sent þúsundir aftur til Marokkó

Ráðamenn á Spáni gerðu svo samkomulag við yfirvöld í Marokkó um að stöðva fólk á leið til Ceuta og síðan þá hafa sífellt fleiri lagt leið sína til Kanaríeyja.

Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í vikunni segir að erfit sé að ná utan um fjölda þeirra sem deyja við að reyna að komast til Kanaríeyja og á öðrum sambærilegum leiðum á sjó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×