Innlent

Hraun­flæði virðist stöðugt

Árni Sæberg skrifar
Nokkuð hefur dregið úr hraunflæði í Meradölum síðan RAX tók þessa ljósmynd þegar hann flaug yfir gosið í fyrradag.
Nokkuð hefur dregið úr hraunflæði í Meradölum síðan RAX tók þessa ljósmynd þegar hann flaug yfir gosið í fyrradag. Vísir/RAX

Engar breytingar hafa orðið á hraunflæði í gosinu í Meradölum síðan í gær að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Þegar hraunflæði var mælt í gær hafði það minnkað um nær helming frá fyrstu mælingu í fyrradag. Til stendur að fljúga yfir gosstöðvarnar á ný í dag og mæla flæði.

Fyrstu flugmælingar sýndu að meðalhraunflæði gossins fyrstu klukkutímana var 32 rúmmetrar á sekúndu en þetta er fjórum til fimm sinnum meira en í byrjun gossins í fyrra. Önnur mæling í gær sýndi hins vegar fram á að hraunflæði væri komið niður í átján rúmmetra á sekúndu.

Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni, bendir ekkert til þess að hraunflæði hafi breyst frá því í gær. Til standi að fljúga yfir svæðið snemma í dag ef veður leyfir og mæla á ný.

Þá segir hún að gossprungan virðist enn um eitt hundrað metrar að lengd og magn gass frá gosinu mælist óbreytt.

Að lokum segir Sigríður að lítil skjálftavirkni hafi verið á svæðinu undanfarið en samkvæmt vef Veðurstofunnar hafa aðeins 567 skjálftar mælst á öllu landinu síðastliðnar 48 klukkustundir.

Eldgosið er í vestanverðum Meradölum um 1,5 km norður af Stóra-Hrút. Jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur-suðvestur sprungu á þeim stað.

Núverandi gönguleið er minnst 14 kílómetrar fram og til baka og krefst göngu upp á Fagradalsfjall í sveig utan um eldri hraunbreiðuna. Samkvæmt björgunarsveitinni Þorbirni má gera ráð fyrir að slík ganga taki 5 til 6 klukkustundir hið minnsta, en liðsmenn sveitarinnar kláruðu í gærkvöldi að stika gönguleiðina.Vísir

Vísir var í beinni útsendingu frá eldgosinu í gærkvöldi og má horfa á hluta hennar í spilaranum hér að neðan.

Fylgst verður með stöðunni á eldgosinu í Meradal í allan dag í vaktinni hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×